Dreifing ráðstöfunartekna árið 2016 breyttist lítið frá fyrra ári samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar. Gini-stuðullinn var 24,1 en var 24,7 árið 2015. Þar sem breytingin er innan vikmarka er ekki hægt að draga þá ályktun að tekjudreifingin hafi breyst. Niðurstöður fyrir árið 2016 eru bráðabirgðaniðurstöður en niðurstöður ársins 2015 leiðréttar tölur, sjá nánari umfjöllun hér á eftir.
Lágtekjuhlutfallið mældist 8,8% árið 2016 sem er sambærilegt við niðurstöður ársins 2015, 9,2%. Hlutfallið hefur verið nokkuð breytilegt á milli ára frá árinu 2011 en sveiflur ekki verið tölfræðilega marktækar frá ári til árs. Lágtekjuhlutfallið endurspeglar hlutfallið undir lágtekjumörkum en þau eru skilgreind sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu.
Í evrópskum samanburði var Ísland með minnstan ójöfnuð árið 2016 með Gini-stuðul 24,1 en því næst komu Slóvakía með 24,3, þá Slóvenía (24,4), Noregur (25) og Tékkland (25,1).
*Gini-stuðull fyrir Írland árið 2016 hefur ekki verið birtur.
Leiðréttur Gini-stuðull og lágtekjuhlutfall 2015
Við reglubundna yfirferð á gögnum 17. nóvember síðastliðinn kom í ljós villa í áður birtum niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2015. Villan hafði áhrif á tekjuútreikninga og þar með upplýsingar um Gini-stuðul og lágtekjuhlutfall. Búið er að leiðrétta niðurstöður og gera viðeigandi ráðstafanir til að hún endurtaki sig ekki. Töflur á vef Hagstofunnar hafa verið uppfærðar með leiðréttum niðurstöðum samhliða birtingu á bráðabirgðaniðurstöðum ársins 2016.
Leiðréttur Gini-stuðull fyrir árið 2015 er 24,7. Við fyrri útreikning var Gini-stuðullinn vanmetinn (23,6) þar sem ekki var tekið fullt tillit til fjármagnstekna. Í töflu 1 sést Gini-stuðull síðustu ára ásamt öryggismörkum.
Tafla 1. Gini-stuðull 2011–2016 | ||
Gini-stuðull | 95% öryggismörk | |
2011 | 23,6 | 1,2 |
2012 | 24,0 | 1,0 |
2013 | 24,0 | 1,1 |
2014 | 22,7 | 0,9 |
2015 | 24,7 | 1,6 |
2016 | 24,1 | 1,2 |
Við endurútreikning á niðurstöðum ársins 2015 hækka miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu og lágtekjumörk um 4,1%. Lágtekjuhlutfallið er 9,2% fyrir árið 2015 eftir endurútreikning en var 9,6% áður. Lágtekjumörk eru skilgreind sem 60% af miðgildi en lágtekjuhlutfall sem hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum.
Í evrópskum samanburði er Ísland árið 2015 með fjórða minnsta ójöfnuð en hafði mælst með minnstan ójöfnuð áður. Slóvakía er með minnstan ójöfnuð (23,7), Noregur (23,9), Slóvenía (24,5), Ísland (24,7) og Tékkland (25).
Aðferðir
Upplýsingar um tekjudreifingu eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Gögnum er safnað frá febrúar og fram í maí ár hvert en tekjuupplýsingar byggjast á framtalsgögnum nýliðins árs. Í samræmi við vinnulag hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, miðast umfjöllun við árið sem gagnanna er aflað en bent er á að tekjuupplýsingar eru frá árinu á undan.
Samkvæmt skilgreiningu Eurostat telst hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa ekki til ráðstöfunartekna í lífskjararannsókninni. Aðrar fjármagnstekjur, svo sem vaxtatekjur og arður af hlutabréfum, teljast hins vegar til ráðstöfunartekna.
Talnaefni