FRÉTT LAUN OG TEKJUR 23. FEBRÚAR 2021

Laun hækkuðu að jafnaði um 3,7% á milli mánaða í janúar 2021 samkvæmt launavísitölu. Hækkunina má að mestu rekja til launahækkana samkvæmt kjarasamningum sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Algengustu kjarasamningshækkanir sem komu til framkvæmda þann 1. janúar 2021 voru 15.750 króna almenn hækkun mánaðarlauna fyrir fullt starf og hækkun kauptaxta um 24.000 krónur.

Frá fyrra ári, eða frá janúar 2020, hefur launavísitalan hækkað um 10,3%. Árið 2019 komu svokallaðir lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kváðu meðal annars á um krónutöluhækkanir í apríl 2020 og janúar 2021 auk styttingu vinnuvikunnar. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, vegna ársins 2019 og 2020, þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019. Í þeim samningum var einnig kveðið á um hækkun 1. janúar 2021 og því um að ræða þrjár kjarasamningshækkanir hjá þeim hópum sé horft til 12 mánaða tímabils.

Breytingar launavísitölu janúar 2020 til janúar 2021
  Frá fyrri mánuði, % Frá fyrra ári %
2020    
Janúar 0,7 4,9
Febrúar 0,1 4,8
Mars 0,3 4,9
Apríl 3,3 6,8
Maí 0,3 6,4
Júní 0,2 6,7
Júlí -0,1 6,3
Ágúst 0,2 6,4
September 0,8 6,7
Október 0,7 7,1
Nóvember 0,4 7,3
Desember 0,2 7,2
2021    
Janúar 3,7 10,3
Skýring: Launavísitala er reiknuð og birt skv. lögum nr. 89/1989. Vísitalan miðast við reglulegt tímakaup í hverjum mánuði.

Stytting vinnuvikunnar og áhrif á launavísitölu
Í greinargerð með lagafrumvarpi um launavísitölu kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Slík ákvæði um styttingu vinnutíma er að finna í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020. Þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launa hafa þessar breytingar áhrif til hækkunar á launavísitölu. Mismunandi útfærslur styttingar hafa sömu áhrif á launavísitölu og skiptir ekki máli hvort útfærslan felist í daglegri styttingu, styttri vinnudegi einu sinni í viku eða hvort styttingu er safnað upp í lengri frí, þar sem heildarstytting er ávallt sú sama.

Fjallað var um vinnutímabreytingar sem þegar hafa komið til framkvæmda á almennum vinnumarkaði og áhrif á launavísitölu í frétt Hagstofu Íslands frá 22. maí 2020. Þar kom fram að í sumum kjarasamningum er kveðið á um styttingu vinnutíma á ákveðnum tímasetningum en aðrir samningar kveða á um heimild starfsfólks og stjórnenda á einstökum vinnustöðum til þess að semja um styttingu vinnutíma, þá oft samhliða niðurfellingu á fastákveðnum kaffitímum, og koma þá sveigjanleg neysluhlé í stað þeirra. Vinnutímastytting sem er tilkomin vegna niðurfellingar á neysluhléum eða samþjöppun hefur ekki áhrif á launavísitölu þegar einungis er um að ræða breytingu á viðveru.

Í kjarasamningum á opinberum markaði er kveðið á um styttingu vinnuvikunnar um 13 mínútur á dag frá 1. janúar 2021 hjá launafólki á mánaðarlaunum í dagvinnu. Sú stytting telst sem ígildi launabreytinga og hefur áhrif til hækkunar á launavísitölu. Ákvæðin um styttingu má finna í fylgiskjali með kjarasamningum fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar við aðildarfélög ASÍ, BSRB og BHM. Undanskilin eru Félag prófessora við ríkisháskóla og Prestafélag Íslands innan BHM. Sambærilegt ákvæði er að finna í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla. Breytingin nær einnig til félaga innan Verkfræðingafélags Íslands, Stéttarfélag byggingarfræðinga, Félags skipstjórnarmanna, Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags ríkisendurskoðunar í starfi hjá ofantöldum aðilum. Auk vinnutímastyttingar er kveðið á um heimild til niðurfellingar á matar- og kaffihléum og upptöku á stuttum, sveiganlegum neysluhléum á forræði vinnuveitanda. Útfærsla á heimildinni er enn á tilraunastigi og hefur því ekki áhrif á launavísitölu. Hagstofa Íslands mun fylgjast með útfærslu heimildar til þess að meta hvort í framkvæmdinni felist stytting á vinnutíma umfram breytta viðveru.

Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020 og eru talin ígildi launabreytinga komu fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019. Áhrif styttingar frá þeim tíma til nóvember 2020 eru metin um 0,8 prósentustig. Endanlegt mat á áhrifum vinnutímastyttingar á launavísitölu frá nóvember 2019 til janúar 2021 verður birt 23. apríl næstkomandi samhliða birtingu á niðurbroti launavísitölu fyrir janúar. Fyrsta mat af áhrifum vinnutímastyttingar í janúar 2021 á launavísitölu er um 0,4 prósentustig.

Fyrirséð er að stytting vinnutíma hafi frekari áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum. Stytting vinnutíma hjá vaktavinnufólki, sem kemur til framkvæmda 1. maí næstkomandi samkvæmt ofangreindum kjarasamningum, mun til að mynda hafa áhrif á launavísitölu.

Um launaþróun
Til þess að gefa skýrari heildarmynd af launum og launabreytingum birtir Hagstofan einnig aðra mælikvarða en launavísitölu. Má þar nefna vísitölu heildarlauna, sem varpar ekki einungis ljósi á verðbreytingu einingarverðs greiddra stunda eins og launavísitala heldur tekur hún einnig til annarra breytinga svo sem á samsetningu vinnutíma, vinnuafls og óreglulegra greiðslna. Enn aðra mynd gefur summa staðgreiðsluskyldra launa sem gefur tímanlega vísbendingu um launatekjur einstaklinga. Almennt dregst launasumma saman þegar fjöldi starfandi einstaklinga og vinnustundum fækkar sem hefur verið tilfellið eftir að kórónuveirufaraldurinn (Covid-19) skall á. Þær breytingar á vinnumarkaði hafa hins vegar ekki áhrif á launaþróun samkvæmt launavísitölu sem mælir verðbreytingu á vinnustund hjá þeim sem eru í vinnu. Á milli nóvember 2019 og nóvember 2020 dróst launasumma á íslenskum vinnumarkaði saman um 1,6% á verðlagi hvers mánaðar á meðan launavísitalan hækkaði um 7,3% á sama tímabili.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.