Launavísitala í mars 2019 er 675,3 stig og hækkaði um 0,2% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 5,5%.

Hagstofan vekur athygli á að samhliða útgáfu launavísitölu í dag breytast töflur með upplýsingum um mánaðarlegt niðurbrot á launavísitölu. Það má rekja til þess að frá og með janúar 2019 tekur launavísitalan einnig til atvinnugreinarinnar Rekstur gististaða og veitingarekstur. Til að gæta samræmis eru gerðar nýjar mánaðarlegar töflur fyrir alla birta undirhópa í launavísitölu, ekki bara atvinnugrein, þar sem vísitölugildi er sett á 100 í desember 2018 og vísitölugildi endurreiknuð aftur til janúar 2015 sem er upphafsmánuður. Þessi breyting á við um eftirfarandi töflur:

• Mánaðarleg launavísitala helstu launþegahópa frá 2015
• Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir starfsstétt frá 2015
• Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein frá 2015

Eldri tímaröðum, þar sem vísitölugildi var sett 100 í desember 2014, verður ekki viðhaldið en þær verða áfram aðgengilegar í töflum undir eldra efni á vef:

• Mánaðarleg launavísitala helstu launþegahópa 2015-2018 – grunnur desember 2014
• Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir starfsstétt 2015-2018 – grunnur desember 2014
• Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein 2015-2018 – grunnur desember 2014

Aðrar töflur, svo sem mánaðarleg launavísitala frá 1989 og ársfjórðungslegt niðurbrot launavísitölu frá 2005, eru óbreyttar.

Nánari upplýsingar um aðferðir, gagnasafn og vogir í launavísitölu má finna í lýsigögnum.