FRÉTT LAUN OG TEKJUR 21. DESEMBER 2021

Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3% í nóvember 2021 samkvæmt launavísitölu. Síðustu þrjá mánuði hafa laun hækkað um 1,5% og skýrist tæplega helmingur þeirrar hækkunar af aukagreiðslum eins og bónusum og vaktaálagi, þar með talið árstíðabundnum aukagreiðslum. Hjá opinberu starfsfólki má rekja hækkanir að mestu til aukningar vaktaálagsgreiðslna. Aukning aukagreiðslna skýrir einnig að hluta hækkanir á almennum vinnumarkaði en þar gætir einnig áhrifa af hækkunum grunnlauna, meðal annars vegna fyrirtækjasamninga og annarra grunnlaunahækkana sem dreifðust nokkuð jafnt yfir atvinnugreinar.

Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,5%. Í árshækkun vísitölunnar gætir meðal annars áhrifa vegna kjarasamningshækkana sem komu til framkvæmda í ársbyrjun 2021 og náðu til meirihluta launafólks á vinnumarkaði. Stytting vinnuvikunnar hjá opinberum starfsmönnum hefur einnig áhrif en áhrif vegna styttingar vinnuvikunnar hjá launafólki á almennum vinnumarkaði mælist ekki í árshækkun þar sem sú breyting kom fyrr til framkvæmda eða að stærstum hluta í janúar 2020.

Áhrif styttingar vinnuviku á launavísitölu tæplega tvö prósentustig
Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala. Áhrif af styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020 komu fyrst fram í launavísitölu í árslok 2019. Frá mars 2019 til og með september 2021 hefur launavísitalan hækkað um 18,4% en hefði hækkað um 16,6% án áhrifa vinnutímastyttingar og áhrifin því metin sem alls 1,8 prósentustig.

Við samanburð á milli markaða þarf að gæta vel að upphafspunkti þar sem kjarasamningar komu til framkvæmda á ólíkum tíma. Hér er gerður samanburður frá mars 2019 þegar fyrstu samningar í yfirstandandi samningslotu komu til framkvæmda. Stærstan hluta launahækkana á tímabilinu má rekja til kjarasamninga sem kváðu á um krónutöluhækkanir og sérstaka hækkun kauptaxta auk styttingu vinnuvikunnar. Frá mars 2019 til september 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu:

  • hækkað um 17,0% á almennum vinnumarkaði og er hækkun án áhrifa vinnutímastyttingar metin 16,0% eða um 1,0 prósentustigi lægri.
  • hækkað um 19,4% á meðal ríkisstarfsmanna og er hækkun án áhrifa vinnutímastyttingar metin 16,3% eða um 3,1 prósentustigum lægri.
  • hækkað um 25,6% í tilfelli starfsfólks sveitarfélaga og er hækkun án áhrifa vinnutímastyttingar metin 22,1% eða um 3,5 prósentustigum lægri.

Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað meira en starfsmanna á almennum markaði, meðal annars þar sem stytting vinnuvikunnar var meiri og almennari á opinberum markaði. Þá fela krónutöluhækkanir í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun sem skýrir hlutfallslega mesta hækkun hjá starfsfólki sveitarfélaganna. Af þeim hópum sem hér eru bornir saman er launastig starfsmanna sveitarfélaga að jafnaði lægst.

Skýringar: Súlurnar sýna hækkun launavísitölu alls og eftir mörkuðum. Tölur efst í súlu sýna hlutdeild hækkunar vegna styttingu vinnuvikunnar í hækkun vístölunnar. Nýjustu upplýsingar um sundurliðun launavísitölu eftir mörkuðum eru frá september 2021 og tekur samanburðurinn mið af þeim. Opinberir starfsmenn vega tæplega 30% í launavísitölunni en almenni vinnumarkaðurinn rúmlega 70%.

Fjallað hefur verið nánar um vinnutímabreytingar og áhrif þeirra á launavísitölu í fyrri fréttum Hagstofunnar á þessu ári, síðast 22. september 2021. Fyrirséð er að stytting vinnuvikunnar, sem kveðið var á um í yfirstandandi kjarasamningslotu, muni hafa áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum þó stærstur hluti styttingar sé þegar kominn til framkvæmda.

Um launavísitölu
Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fastrar/ómældrar yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru hins vegar ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda.

Við útreikning á launavísitölu er reynt eftir megni að halda samsetningu fastri hvort sem um ræðir samsetningu á vinnuafli eða vinnutíma. Því hafa breytingar á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi opinberra starfsmanna í vaktavinnu, sem komu til framkvæmda á vormánuðum 2021, ekki áhrif á launavísitöluna. En þó almennt gildi að breytingar á vinnutíma launafólks hafi ekki áhrif á launavísitölu geta breytingar á vinnutímaákvæðum kjarasamninga haft áhrif ef þær eru ígildi launabreytinga. Í lögum um launavísitölu nr. 89/1989 kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga.

Í kjarasamningunum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020 voru gerðar slíkar breytingar á vinnutímaákvæðum, þar á meðal stytting vinnutíma, en útfærslur eru mismunandi og áhrif á launavísitölu ólík. Í sumum kjarasamningum er kveðið á um styttingu vinnutíma á ákveðnum tíma á meðan aðrir samningar kveða á um heimild starfsfólks og stjórnenda á einstökum vinnustöðum til þess að semja um styttingu vinnutíma, þá oft samhliða niðurfellingu á fastákveðnum kaffitímum og koma þá sveigjanleg neysluhlé í stað þeirra. Vinnutímastytting, sem er tilkomin vegna niðurfellingar á neysluhléum eða samþjöppun, hefur ekki áhrif á launavísitölu þegar einungis er um að ræða breytingu á viðveru.

Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum launavísitölu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.