Kaupmáttur launa jókst um 1,4% milli ára á almennum vinnumarkaði
Regluleg laun hækkuðu að meðaltali um 5,4% á tímabilinu frá 3. ársfjórðungi 2004 til 3. ársfjórðungs 2005 í iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 4,0%. Samkvæmt því jókst kaupmáttur launa að meðaltali um 1,4% í þessum atvinnugreinum. Launahækkun starfsstétta var á bilinu 4,5% til 6,0%. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu almennt skv. kjarasamningum um 3% þann 1. janúar 2005.
Niðurstöður eru byggðar á launum tæplega 7 þúsund einstaklinga sem voru í úrtaki launakönnunar Hagstofunnar bæði á 3. ársfjórðungi 2004 og 3. ársfjórðungi 2005 (sk. paraðar launabreytingar).
Úrvinnsla byggir á aðferðum Kjararannsóknarnefndar og er meðalbreyting reiknuð sem meðaltal breytinga innan neðri og efri fjórðungsmarka.. Launavísitala Hagstofunnar mældi 6,1% breytingu grunnlauna á almennum vinnumarkaði fyrir sama tímabil. Niðurstöður eru frábrugðnar enda byggir launavísitala á öðrum hugtökum og aðferðum þrátt fyrir að gögn úr launakönnun Hagstofunnar séu notuð í báðum tilvikum.
| Ársbreyting reglulegra launa í iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu eftir starfsstéttum | |
| Breyting milli 3. ársfjórðungs 2004 og 2005 | Meðalbreyting % |
| Allar stéttir | 5,4 |
| Starfsstétt | |
| Verkafólk | 6,0 |
| Iðnaðarmenn | 5,6 |
| Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk | 5,3 |
| Skrifstofufólk | 4,6 |
| Tæknar og sérmenntað starfsfólk | 4,7 |
| Sérfræðingar | 4,5 |
| Stjórnendur | 4,9 |
Dreifing ársbreytinga reglulegra launa í iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu

Flestir launamenn í iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu fengu 3 % hækkun reglulegra launa á tímabilinu. Helmingur fékk allt að 4,1% hækkun og fjórðungur fékk meiri launahækkun en 11,9%.
| Ársbreyting reglulegra launa eftir atvinnugreinum | |
| Breyting milli 3. ársfjórðungs 2004 og 2005 | Meðalbreyting % |
| Atvinnugrein | |
| Matvæla- og drykkjarvöruiðnaður (DA) | 3,8 |
| Annar iðnaður (D án DA) | 7,7 |
| Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F) | 6,7 |
| Verslun og ýmis viðgerðarþjónusta (G) | 5,2 |
Launakönnun Hagstofunnar
Frá 1. janúar 2005 annast Hagstofan framkvæmd á launakönnun sem áður var í umsjá Kjararannsóknarnefndar. Það sem af er ári hefur ekki verið unnt að afla gagna hjá hluta þeirra fyrirtækja sem eru í úrtaki könnunarinnar. Ástæðuna má rekja til breytinga á hugbúnaði sem notaður er til launaútreikninga í fyrirtækjunum og gagnaskil byggjast á. Þetta hefur leitt til þess að úrvinnslu gagna hefur verið haldið í lágmarki árið 2005 þar sem niðurstöður hefðu ella orðið óáreiðanlegar. Þær niðurstöður sem hér birtast takmarkast við iðnað, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu. Áætlað er að gagnaskil verði komin í eðlilegt horf í árslok.
Ársbreyting reglulegra launa á 1. og 2. ársfjórðungi 2005
Á vef Hagstofunnar er jafnframt að finna talnaefni sem sýnir ársbreytingu reglulegra launa í iðnaði, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, verslun og viðgerðarþjónustu fyrir 1. og 2. ársfjórðung 2005.
Talnaefni