Árið 2013 var munur ráðstöfunartekna eftir menntun minnstur á Íslandi samanborið við önnur Evrópuríki. Þeir sem höfðu eingöngu lokið grunnmenntun voru með 86,3% af ráðstöfunartekjum þeirra sem höfðu lokið háskólamenntun en næst á eftir voru Svíþjóð, Noregur og Holland með 80,3%, 77% og 73,6%. Við samanburð milli landa á þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun var miðgildi ráðstöfunartekna á Íslandi árið 2013 það fjórða hæsta í Evrópu. Ísland var aftur á móti í 15. sæti yfir ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra. Ráðstöfunartekjur taka mið af heimilistekjum, fjölda og aldri heimilismanna og hafa verið leiðréttar fyrir mismunandi verðlagi á Evrópska efnahagssvæðinu.
Skýringar: Löndunum er raðað eftir miðgildistekjum hópsins sem er með starfs- og framhaldsmenntun. Myndin sýnir eingöngu þá sem eru á aldrinum 18 til 64 ára. Leiðrétt er fyrir mismunandi verðlagi með PPS sem er viðmiðunargjaldmiðill sem notaður er af Eurostat.
Heimild: Eurostat.
Nýjustu tölur fyrir Ísland eru frá árinu 2014 en þá höfðu þeir sem einungis voru með grunnmenntun 87,7% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra en höfðu haft 79,7% árið 2004 þegar lífskjararannsóknin var fyrst framkvæmd. Á sama tímabili fóru tekjur fólks með framhalds- eða starfsmenntun úr 84,5% af tekjum háskólamenntaðra í 91,6%. Munur á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og annarra hópa var nokkuð stöðugur til ársins 2010 en hefur síðan farið minnkandi.
Skýringar: Miðað er við miðgildi ráðstöfunartekna í hvorum hópi.
Hagtölur á vef
Þessar upplýsingar eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um tekjur og menntun byggt á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.
Tekjur og menntun 2014 - Hagtíðindi