FRÉTT LAUN OG TEKJUR 14. JANÚAR 2022

Hagstofan hefur gefið út íslenska starfaflokkun ÍSTARF21 sem byggir á alþjóðlegri starfaflokkun, International Standard Classification of Occupations (ISCO-08). Flokkunarkerfið er viðurkenndur staðall fyrir alþjóðlega tölfræði um vinnumarkað og er í umsjón Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). ÍSTARF21 er eingöngu gefið út á stafrænu formi.

Um er að ræða nýja útgáfu af ÍSTARF-flokkunarkerfinu sem kom fyrst út á Íslandi árið 1994 (ÍSTARF95) og í annarri útgáfu árið 2009. Í fyrri útgáfum var megináhersla lögð á að aðlaga flokkunarkerfið að íslenskum vinnumarkaði en í þessari útgáfu er hins vegar lögð áhersla á samræmi á milli íslenska kerfisins og þess alþjóðlega. Slíkt einfaldar alþjóðlegan samanburð auk þess sem íslenskar aðstæður hafa breyst mikið síðustu áratugi og þær færst nær alþjóðlegu umhverfi.

Fyrirkomulag nýrrar útgáfu er í meginatriðum byggt á sömu þáttum og áður en þó hafa verið gerðar ýmsar breytingar til þess að bregðast við þróun á vinnumarkaði og er ný útgáfa mun ítarlegri en sú eldri. Þá er einnig sú áherslubreyting að í nýju útgáfunni er eðli starfa nú mikilvægara en kröfur um menntun eða kunnáttustig.

Helstu breytingar á milli útgáfa eru:

  • Endurskipulagning starfaflokka fyrir stjórnunarstörf í bálki 1.
  • Starfaflokkum fyrir sérfræðistörf í bálki 2 hefur fjölgað. Bæði er um nýja flokka að ræða auk þess sem störf tækna og sérhæfðs starfsfólks í bálki 3 hafa verið færð í bálk 2.
  • Starfaflokkum fyrir störf innan heilbrigðisþjónustu, landbúnaðar og upplýsinga- og fjarskiptatækni hefur verið fjölgað.
  • Flokkun skrifstofustarfa í bálkum 4 og 5 hefur verið endurskipulögð til þess að bregðast við auknum áhrifum upplýsinga- og fjarskiptatækni á störf í þessum bálkum.
  • Vegna tækniþróunar hafa nokkur störf sem áður flokkuðust í bálka 7 og 8 færst í bálk 3.

ÍSTARF-starfsflokkun nýtist í ýmis konar hagskýrslugerð eins og vinnuafls- og launatölfræði. Einnig er flokkunin víða nýtt í vísindastarfi og atvinnulífi. Með því að byggja hagskýrslugerð, vísindarannsóknir og jafnlaunagreiningar á samræmdu kerfi starfaflokkunar fæst grunnur að réttmætum samanburði starfa á vinnumarkaði.

Samræmd starfaflokkun á íslenskum vinnumarkaði
Á næstu mánuðum verður unnið frekar að framsetningu ÍSTARF21 til þess að tryggja árangursríka innleiðingu á nýju flokkunarkerfi. Markmiðið er að gera starfaflokkunarkerfið aðgengilegt öllum notendum. Með því er lagður grunnur að samræmdri starfaflokkun á íslenskum vinnumarkaði.

Til þess að styðja við markmið innleiðingar mun Hagstofan á árinu opna sérstakan starfaflokkunarvef með uppflettingum í ÍSTARF21 auk leiðbeininga um starfaflokkun. Samhliða mun Hagstofan viðhafa samráð við notendur og í kjölfarið aðlaga starfaflokkunarkerfið ef þarf. Þeir notendur sem vilja taka þátt í innleiðingu ÍSTARF21 eru beðnir um að hafa samband við Hagstofuna í gegnum netfangið istarf@hagstofa.is.

Síðasta skrefið í innleiðingarferlinu er að skipta út eldri útgáfu starfaflokkunar (ÍSTARF95) fyrir nýja útgáfu (ÍSTARF21) í launakerfum sem er áætlað í árslok 2022. Eftir það geta þeir notendur sem skrá flokkun starfa í launahugbúnaði flokkað samkvæmt nýrri útgáfu. Aðrir notendur en þeir sem flokka störf í launahugbúnaði geta nýtt sér ÍSTARF21 fyrir þann tíma.

ÍSTARF21 - Útgáfa

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang istarf@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.