Óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1% árið 2016 en hafði verið 17% árið áður. Launamunurinn var rúmlega 16% bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkisstarfsmönnum en rúm 8% hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem launadreifing er almennt minni. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Tímakaupið nær til grunnlauna, fastra álags- og bónusgreiðslna auk yfirvinnu.
Óleiðréttur launamunur 2012-2016 | |||||
2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | |
Alls | 17,2 | 18,5 | 16,4 | 17,0 | 16,1 |
Almennur vinnumarkaður | 16,8 | 17,2 | 16,3 | 16,7 | 16,4 |
Opinberir starfsmenn, allir | 16,5 | 15,5 | 13,9 | 14,6 | 15,9 |
Opinberir starfsmenn, ríkisstarfsmenn | 17,8 | 16,7 | 14,8 | 14,9 | 16,3 |
Opinberir starfsmenn, starfsmenn sveitarfélaga | 8,1 | 6,9 | 7,2 | 7,2 | 8,3 |
Rúmlega tvisvar sinnum algengara að karlar hafi yfir milljón á mánuði
Árið 2016 var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl. Þá voru tæplega 15% karla með heildarlaun yfir milljón á mánuði en tæplega 6% kvenna. Helmingur kvenna var með laun undir 525 þúsund krónum en miðgildi heildarlauna karla var 643 þúsund krónur á mánuði.
Heildarlaun kvenna voru að meðaltali 22% lægri en heildarlaun karla árið 2016. Heildarlaun karla voru að meðaltali 742 þúsund krónur og heildarlaun kvenna 582 þúsund krónur.
Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf. Karlar í fullu starfi unnu að jafnaði meira en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir karla að meðaltali 189,1 á mánuði árið 2016 en 179,7 hjá konum. Þannig var minni munur á grunnlaunum fullvinnandi launamanna eftir kyni eða um 12% enda yfirvinna ekki hluti grunnlauna. Munurinn á reglulegum launum karla og kvenna, það er grunnlaun auk fastra bónus- og álagsgreiðslna, var rúm 15%.
Kynskiptur vinnumarkaður hefur áhrif á launamun kynjanna
Meðaltal og miðgildi launa kvenna var lægra en karla í öllum starfsstéttum og bilið á milli efstu og neðstu tíundar var stærra hjá körlum en konum.
Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Stjórnendur (1), sérfræðingar (2), tæknar og sérmenntað starfsfólk (3), skrifstofufólk (4), þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk (5), verkafólk (VERK).
Hafa ber í huga að störf innan starfsstétta eru mjög ólík og íslenskur vinnumarkaður kynskiptur. Þannig var algengast að konur í sérfræðistörfum væru grunnskólakennarar en karlar sérfræðingar í viðskiptagreinum.
Miðgildi og meðaltal heildarlauna fyrir fullt starf var lægra hjá konum en körlum í öllum atvinnugreinum. Bilið milli efstu og neðstu tíundar var einnig stærra hjá körlum en konum í öllum atvinnugreinum nema rafmagns-, gas- og hitaveitum (D) og opinberri stjórnsýslu (O).
Karlar og konur voru í mismunandi störfum innan atvinnugreina. Þannig sinntu 14% kvenna í heilbrigðis- og félagsþjónustu (Q) sérfræðistörfum við hjúkrun, 13% gegndu ýmsum stjórnendastöðum, 7% voru sjúkraliðar og tæplega 6% voru í sérfræðistörfum við lækningar. Hins vegar voru 19% karla í sérfræðistörfum við lækningar og sama hlutfall gegndi ýmsum stjórnunarstöðum. Tæplega 2% karla sinntu sérfræðistörfum við hjúkrun og tæplega 1% störfum sjúkraliða.
Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).
Nánar um laun og launamun kynjanna
Óleiðréttur launamunur kynjanna byggir á aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat og launarannsókninni Structure of Earnings Survey. Við útreikninga er stuðst við fastar reglulegar greiðslur auk yfirvinnu í október ár hvert. Óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Ekki er tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga, eins og starf, menntun, aldur og starfsaldur. Samsetning vinnutíma hefur áhrif á tímakaupið. Þar sem yfirvinnustundir eru að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu verður tímakaupið því hærra sem meiri yfirvinna er hluti launa.
Gögn byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn fyrirtækja með 10 eða fleiri starfsmenn og eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Launarannsóknin nær til 80% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar. Grunnlaun eru greidd mánaðarlaun fyrir dagvinnu án allra aukagreiðslna. Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu, auk hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Heildarlaun eru öll laun einstaklings að undanskildum hlunnindum og akstursgreiðslum. Launamunur er reiknaður sem mismunur launa karla og kvenna sem hlutfall af launum karla.