Óleiðréttur launamunur kynjanna mældist 14% árið 2019 en var 13,6% árið 2018 og hafði þá lækkað um 1,4 prósentustig frá fyrra ári. Launamunur fór stigvaxandi eftir aldri og var munurinn 1,9% á meðal 24 ára og yngri, 13,3% í aldurshópnum 35-44 ára og 21,2% á meðal 55-64 ára. Óleiðréttur launamunur er hér reiknaður sem mismunur á meðaltímakaupi, regluleg laun auk yfirvinnu, karla annars vegar og kvenna hins vegar sem hlutfall af meðaltímakaupi karla.

Mikill munur var á launamun kynja eftir atvinnugreinum. Óleiðréttur launamunur mældist minnstur í atvinnugreininni rekstri gististaða og veitingarekstri (I), eða 6,8%, á meðan hann var 33% í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingastarfssemi (K) þar sem hann var mestur. Einnig var töluverður munur á launamun eftir starfsstétt. Munur á milli kynja var 25,6% á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks (3) þar sem hann var mestur en enginn launamunur mældist hjá skrifstofufólki (4) árið 2019.

Rétt er að benda á að störf bæði innan starfsstétta og atvinnugreina geta verið mismunandi og íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur. Til dæmis var algengast í starfsstéttinni sérfræðingar (2) að konur væru í störfum við kennslu á grunnskólastigi en karlar í sérfræðistörfum í viðskiptagreinum. Í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingarstarfsemi (K), þar sem launamunurinn var mestur árið 2019, var launadreifing mjög mikil. Þar voru um 64% karla í störfum stjórnenda (1) eða sérfræðinga (2) en tæplega 60% kvenna í störfum tækna og sérmenntaðs starfsfólks (3) eða í skrifstofustörfum (4).

Síðan 2008 hefur óleiðréttur launamunur farið minnkandi en árið 2019 var launamunur á almennum vinnumarkaði 14,8%, 14% hjá ríkisstarfsmönnum og 7,2% á meðal starfsfólks sveitarfélaga. Lítill launamunur hjá starfsfólki sveitarfélaga hélst í hendur við litla dreifingu launa og hátt hlutfall kvenna en konur voru rúmlega 70% starfsfólks sveitarfélaga.

Á milli ára má greina ákveðið flökt á óleiðréttum launamun kynjanna sem meðal annars má rekja til þess að útreikningar byggja á einum mánuði en ekki meðaltali árs. Viðmiðunarmánuðurinn er ávallt október en aukagreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili eins og bónus, álag og vaktaálag auk yfirvinnugreiðslna geta verið breytilegar á milli mánaða og ára. Þá kann einnig að gæta áhrif kjarasamninga í útreikningum. Til dæmis voru kjarasamningshækkanir komnar inn á almennum vinnumarkaði í október 2019 en ekki hjá starfsfólki í opinbera geiranum.

Einnig er vert að hafa í huga að útreikningar byggja á úrtaki launagreiðenda og getur samsetning launagreiðenda breyst á milli ára þar sem gæði gagna aukast ár frá ári. Slíkar samsetningabreytingar geta leitt til þess að meðaltímakaup hækkar eða lækkar lítillega. Þetta á sérstaklega við um einstakar atvinnugreinar. Nokkuð stór breyting varð til dæmis árið 2018 þegar atvinnugreininni rekstri gististaða og veitingarekstri (I) var bætt við úrtakið.

Launadreifing hefur áhrif á launamun
Dreifingarmynd eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn gefur til kynna að hlutfallslega fleiri konur raðist í lægri launuð störf en karlar raðist á hægri hala dreifingarinnar þar sem tímakaup er hærra. Það skýrist að hluta til af því að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og karlar vinna meiri yfirvinnu en konur. Hátt hlutfall yfirvinnustunda hefur áhrif til hækkunar á tímakaupi þar sem yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en dagvinnustund. Óleiðréttur launamunur er samanburður á meðaltali og þar sem laun eru almennt ekki normaldreifð þá hafa útgildi (há laun) áhrif til hækkunar á meðaltali. Þar sem algengara er að karlar séu með laun í hæsta launastigi getur það því ýkt launamuninn.

Skýring: Myndin sýnir líkindadreifingu eða þéttni en ekki fjölda. Líkindadreifing (e. density) sýnir líkur á að breyta taki ákveðin gildi og eru samanlögð líkindi ávallt einn.

Þverstæða Simpsons algeng í launamun kynja
Eitt af því sem er gagnlegt að hafa í huga þegar hópar innan talnaefnisins eru skoðaðir er þverstæða Simpsons. Þverstæða Simpsons lýsir því þegar heildarútkoma eða niðurstaða heildarmengis virðist vera í þversögn við niðurstöður hlutmengja en samband hlutmengja getur myndað öfug áhrif í heildarútreikningi. Þverstæða Simpsons er algengt fyrirbæri í útreikningum á launamun kynja og skýrir meðal annars þá niðurstöðu að árið 2019 var launamunur á milli kynja hjá starfsfólki á opinberum markaði 13,9% á meðan launamunur ríkisstarfsfólks var 14% og launamunur starfsfólks sveitarfélaga 7,2%. Þetta skýrist af því að starfsfólk sveitarfélaga er að meðaltali með lægri laun og ríkisstarfsfólk með hærri. Þegar hóparnir eru settir saman nær launadreifingin yfir lengri spönn og launamunurinn eykst þar af leiðandi.

Skýring: Myndin sýnir fjórðungamörk launadreifingar karla og kvenna í opinbera geiranum. Línan í miðjum kassanum sýnir miðgildi launa hvers hóps, efri mörk kassans sýna efri fjórðungsmörk (75% eru með lægri laun, 25% með hærri) og neðri mörk sýna neðri fjórðungsmörk (25% með lægri laun, 75% með hærri). Halarnir sýna hæstu og lægstu laun að undanskildum útgildum/útlögum.

Um óleiðréttan launamun
Útreikningur á óleiðréttum launamun kynja (e. unadjusted gender pay gap) byggir á aðferðum Structure of Earnings Survey (SES) frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandins. Við útreikninga er stuðst við laun í októbermánuði ár hvert þar sem um er að ræða grunnlaun og aukagreiðslur sem eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili hjá fyrirtæki, eins og álags- og bónusgreiðslur, vaktaálag og eftirvinna. Í launum er einnig tilfallandi yfirvinna en óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar.

Reiknað er meðaltímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Ekki er tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga svo sem starf, menntun, aldur og starfsaldur. Samsetning vinnutíma hefur áhrif á tímakaupið þar sem yfirvinnustundir eru að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Tímakaupið verður þar af leiðandi því hærra sem meiri yfirvinna er hluti launa.

Laun fyrir íslenskan vinnumarkað í SES byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofunnar. Í október árið 2019 ná niðurstöður til tæplega 70 þúsund launamanna sem störfuðu hjá launagreiðendum með tíu starfsmenn eða fleiri. Launarannsóknin nær til um 90% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar.

Talnaefni fyrir árin 2015-2017 hefur nú verið endurskoðað en niðurstöður eru alla jafna endurskoðaðar á fjögurra ára fresti þegar niðurstöður SES liggja fyrir. SES-rannsóknin er framkvæmd á fjögurra ára fresti og í lok síðasta árs lágu fyrir niðurstöður vegna ársins 2018.

Vakin er athygli á því að niðurbrot á talnaefni hefur verið aukið innanlands og er nú að finna ítarlegri upplýsingar í talnaefni innanlands en í sambærilegu talnaefni hjá Eurostat. Aukið niðurbrot í þessari útgáfu nær til birtingar á tímakaupi karla og kvenna fyrir alla hópa auk birtingar á launamun eftir starfsstéttum og aldri

Nánar má lesa um lýsigögn og aðferðir óleiðrétts launamunar á vef Eurostat, sjá hér og nánar um SES hér.

Talnaefni