Óleiðréttur launamunur karla og kvenna var 10,2% árið 2021 og dróst saman frá fyrra ári úr 11,9%.1 Launamunur jókst eftir aldri og var munurinn 0,9% á meðal 24 ára og yngri, 10% í aldurshópnum 35-44 ára og 16,7% meðal 55-64 ára. Mikill munur var á launamuni eftir atvinnugreinum. Í fjármála- og vátryggingastarfsemi var munurinn 29,7% en minnstur í rafmagns- gas og hitaveitum eða 4,3%.
Launamunur karla og kvenna eftir starfsstétt var á bilinu 0,5% hjá skrifstofufólki og 21,5% á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks. Ein helsta skýring þess launamunar sem er til staðar á Íslandi er kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar samanber rannsókn á launamun karla og kvenna sem kom út árið 2021. Þar kemur fram að um 43% kvenna sem voru á vinnumarkaði árið 2019 störfuðu hjá hinu opinbera en einungis um 15% karla. Launamunur var 13,9% á almennum vinnumarkaði, 10% hjá starfsfólki ríkisins og 6,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaga.
Hlutfallslega fleiri konur í lægri launuðum störfum en karlar
Launadreifing eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn sýnir áhrif kynskipts vinnumarkaðar þar sem hlutfallslega fleiri konur eru í lægra launuðum störfum en karlar. Þeir raðast frekar á hægri hala dreifingarinnar þar sem tímakaup er hærra. Auk þess vinna karlar að jafnaði meiri yfirvinnu en konur og eru því með hærra tímakaup. Hátt hlutfall yfirvinnustunda hefur áhrif til hækkunar á tímakaupi þar sem yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en dagvinnustund. Óleiðréttur launamunur er samanburður á meðaltali og þar sem laun eru almennt ekki normaldreifð þá hafa útgildi (há laun) áhrif til hækkunar á meðaltali. Þar sem algengara er að karlar séu með laun í hæsta launastigi getur það því ýkt launamuninn.
Myndin sýnir líkindadreifingu en ekki fjölda. Líkindadreifing (e. density) sýnir líkur á að breyta taki ákveðin gildi og eru samanlögð líkindi ávallt einn.
Rétt er að benda á það að við samanburð á niðurstöðum eftir undirhópum (hlutmengja) getur komið fram þversögn við heildarniðurstöður. Til dæmis jókst óleiðréttur launamunur á almennum markaði um 2,2 prósentustig og 0,5 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga á milli áranna 2020 til 2021 en dróst saman hjá starfsfólki ríkisins um 1,3 prósentustig. Á sama tíma minnkaði óleiðréttur launamunur alls (allir hóparnir saman) úr 11,9% í 10,2% sem er lækkun um 1,7 prósentustig eða meiri lækkun en hjá hverjum hópi fyrir sig. Það skýrist af því að þegar hóparnir eru settir saman nær launadreifingin yfir lengri spönn. Þetta má sjá þegar launadreifing karla og kvenna á almennum vinnumarkaði, í störfum hjá ríkinu og í störfum hjá sveitafélögum er borin saman við vinnumarkaðinn í heild sinni (alls).
Myndin sýnir líkindadreifingu alls og skipt eftir launþegahópum: Vinnumarkaðurinn í heild sinni (alls), almennur vinnumarkaður, starfsfólk ríkisins og starfsfólk sveitafélaga. Líkindadreifing (e. density) sýnir líkur á að breyta taki ákveðin gildi og eru samanlögð líkindi ávallt einn.
Um óleiðréttan launamun
Útreikningur á óleiðréttum launamun (e. unadjusted gender pay gap) byggir á aðferðum rannsóknar Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um laun einstaklinga (e. Structure of Earnings Survey). Við útreikninga er stuðst við laun í októbermánuði ár hvert þar sem um er að ræða grunnlaun og aukagreiðslur sem eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili hjá fyrirtæki eins og álags- og bónusgreiðslur, vaktaálag og eftirvinna. Í launum er einnig tilfallandi yfirvinna en óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar.
Reiknað er meðaltímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Ekki er tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga svo sem starf, menntun, aldur og starfsaldur. Samsetning vinnutíma hefur áhrif á tímakaupið þar sem yfirvinnustundir eru að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Tímakaupið verður þar af leiðandi því hærra sem meiri yfirvinna er hluti launa.
Niðurstöður byggja á launagögnum Hagstofunnar og ná til tæplega 65 þúsund launafólks á íslenskum vinnumarkaði árið 2021. Um er að ræða fyrirtækjarannsókn með tíu starfsmenn eða fleiri sem nær til stærsta hluta vinnumarkaðarins. Rétt er að benda á að við samanburð á milli ára geta breytingar stafað af breytingum á samsetningu úrtaks eða samsetningu á vinnumarkaði. Til dæmis voru færri á starfandi árið 2021 en 2019 vegna kórónuveirufaraldursins.
1 Reiknað er reglulegt heildartímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Hlutfallið sýnir þannig hversu mikið lægri laun konur hafa að jafnaði en karlar.