Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi reiknaður samkvæmt aðferðafræði evrópsku hagstofunnar Eurostat var 19,9% árið 2013 og jókst úr 18,1% árið 2012. Munurinn var 19,9% á almennum vinnumarkaði en 15,0% hjá opinberum starfsmönnum. Hjá opinberum starfsmönnum var munurinn 16,2% hjá ríki og 5,6% hjá sveitarfélögum. Lítill launamunur hjá starfsmönnum sveitarfélaga helst í hendur við litla dreifingu launa í þeim hópi og hátt hlutfall kvenna en þær eru um 75% starfsmanna sveitarfélaga. Umfjöllun um laun og dreifingu þeirra, vinnutíma og samsetningu gagnasafnsins eftir kyni má finna í frétt Hagstofunnar og Hagtíðindum Laun á íslenskum vinnumarkaði frá 8. maí. 2014.

 

Þegar horft er til atvinnugreina er launamunurinn mestur í fjármála- og vátryggingastarfsemi 37,1% og minnstur í heilbrigðis- og félagsþjónustu 9,1%. Mikill launamunur í fjármála- og vátryggingastarfsemi helst í hendur við mikla dreifingu launa í þeirri atvinnugrein.


 
Í þessari útgáfu er launamunur skilgreindur sem óleiðréttur þar sem ekki er tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga. Dæmi um slíka skýringarþætti eru starf, menntun, aldur, starfsaldur og fleira. Þannig er ekki tekið tillit til þess að starfsval kynjanna er oft á tíðum ólíkt. Þá ber að athuga að greidd laun fyrir yfirvinnu og fjöldi yfirvinnustunda er inni í útreikningum en hver yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Því meiri yfirvinna sem er inni í laununum, því hærra verður tímakaupið og því hefur ólíkt vinnutímamynstur kynjanna áhrif á niðurstöðurnar. Karlar vinna að jafnaði meira en konur og voru vikulegar greiddar stundir fullvinnandi karla 44,2 að meðaltali árið 2013 en vikulegar greiddar stundir fullvinnandi kvenna voru 41,9. Með því að reikna óleiðréttan launamun á þennan hátt fæst ákveðin mynd af launamyndun kynjanna á vinnumarkaði sem kann að skýrast af þeim þáttum sem á undan eru taldir.

Útreikningur á óleiðréttum launamun kynjanna byggist á aðferðafræði launarannsóknar evrópsku hagstofunnar Eurostat (Structure of Earnings Survey). Við útreikning er stuðst við mánaðarlaun í októbermánuði á hverju ári. Mánaðarlaun byggja á föstum reglulegum greiðslum auk yfirvinnu. Óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar í útreikningum. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af heildartímakaupi karla er túlkað sem óleiðréttur launamunur.

Talnaefni