Nýjum töflum hefur verið bætt við á vef Hagstofu Íslands sem innihalda annars vegar regluleg laun á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein og kyni og hins vegar regluleg laun eftir starfsstétt og kyni. Í þessum töflum eru birt regluleg laun fyrir tvo hópa; fullvinnandi og launamenn í hlutastarfi. Laun starfsfólks í hlutastarfi eru umreiknuð miðað við fullt starf. Að auki eru birt regluleg laun allra launamanna á almennum vinnumarkaði.
Í janúar 2008 birti Hagstofan meðallaun fyrir fullvinnandi launamenn á almennum vinnumarkaði 1998-2006. Í töflum sem innihalda laun fullvinnandi launamanna eru, auk reglulegra launa, birt launahugtökin regluleg heildarlaun og heildarlaun. Í töflunum er einnig birtur fjöldi greiddra stunda.
Við samanburð á launum fullvinnandi launamanna og í hlutastarfi ber að hafa í huga að víða eru í gildi svokallaðir fastlaunasamningar þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Því er yfirvinna hluti af reglulegum launum ýmissa hópa fullvinnandi launamanna. Fastlaunasamningar eru til staðar í öllum starfsstéttum en algengastir hjá stjórnendum, sérfræðingum og skrifstofufólki.
Tölur vegna ársins 2007 verða gefnar út 16. apríl 2008 samkvæmt birtingaráætlun.
Talnaefni