Regluleg mánaðarlaun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 436 þúsund krónur að meðaltali árið 2013. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 250-300 þúsund krónur og voru ríflega 17% launamanna með regluleg laun á því bili. Þá voru rúmlega 75% launamanna með regluleg laun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun karla voru 475 þúsund krónur að meðaltali og regluleg laun kvenna 393 þúsund krónur.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 526 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2013. Algengast var að heildarlaun væru á bilinu 400-450 þúsund og voru tæplega 14% launamanna með laun á því bili. Þá voru tæplega 60% með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Heildarlaun karla voru 591 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun kvenna 457 þúsund krónur.
 

Skýringar:Rétthyrningurinn afmarkast af neðri og efri fjórðungsmörkum og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin markast af 10/90 mörkum

Eins og sjá má á mynd að ofan voru laun karla dreifðari en laun kvenna. Fleiri launamenn voru með laun undir meðaltali en yfir því en miðgildi var ætið lægra en meðaltalið. Það skýrist meðal annars af því að það voru fleiri útgildi til hækkunar meðaltals en lækkunar, þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör. Þá voru laun fullvinnandi kvenna að jafnaði lægri en laun fullvinnandi karla.

Regluleg laun voru hæst á almennum vinnumarkaði en heildarlaun hæst hjá ríkisstarfsmönnum
Á almennum vinnumarkaði voru regluleg laun 467 þúsund krónur á mánuði árið 2013 og heildarlaun 556 þúsund krónur. Regluleg laun opinberra starfsmanna voru 397 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 489 þúsund krónur. Þegar hópar opinberra starfsmanna eru skoðaðir nánar má sjá að regluleg laun ríkisstarfsmanna voru 438 þúsund á mánuði árið 2013 og heildarlaun 570 þúsund. Regluleg laun starfsmanna sveitarfélaga voru 356 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun þeirra 409 þúsund krónur. Opinberir starfsmenn teljast starfsmenn sveitarfélaga og starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir teljast til almenns vinnumarkaðar.
 

Skýringar:(rl) regluleg laun, (hl) heildarlaun. Rétthyrningurinn afmarkast af neðri og efri fjórðungsmörkum og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin markast af 10/90 mörkum

Samsetning launþegahópanna er ólík í gagnasafninu. Þannig voru tæplega 70% starfs-manna á almennum vinnumarkaði félagar í Alþýðusambandi Íslands árið 2013. Stærstu stéttarfélög starfsmanna ríkisins voru Bandalag háskólamanna með 25% starfsmanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja með 34% starfsmanna. Hjá sveitarfélögunum voru hins vegar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja stærst með 29% starfsmanna og Kennarasamband Íslands með 27%.


Hæstu launin í fjármála- og vátryggingastarfsemi og hjá veitum
Árið 2013 voru regluleg laun fullvinnandi hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi (K) en þar voru regluleg laun 653 þúsund að meðaltali. Heildarlaun voru aftur á móti hæst í rafmagns- og hitaveitum (D) en þar voru heildarlaun 702 þúsund að meðaltali á mánuði. Laun voru lægst í fræðslustarfsemi (P) en þar voru regluleg laun 360 þúsund og heildarlaun 416 þúsund að meðaltali.
 

Skýringar:(rl) regluleg laun, (hl) heildarlaun. Rétthyrningurinn afmarkast af neðri og efri fjórðungsmörkum og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin markast af 10/90 mörkum. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).

Launadreifing er mest innan fjármála- og vátryggingastarfsemi (K) en minnst í fræðslu-starfsemi (P). Þá er launadreifing einnig lítil í reglulegum launum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F). Þá má sjá að mismunur reglulegra launa og heildarlauna var nokkuð mikill í rafmagns- og hitaveitum (D), vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E) og byggingarstarfemi og mannvirkjagerð (F). Mismunur reglulegra launa og heildarlauna skýrist af yfirvinnugreiðslum og öðrum óreglulegum greiðslum eins og desemberuppbót, eingreiðslum, ákvæðisgreiðslum og bakvöktum. Fyrirvari er gerður við niðurstöður, en í atvinnugrein J vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Í atvinnugreinum O, P og Q takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn.

Frekari umfjöllun í nýjum heftum hagtíðinda
Þessar niðurstöður og frekari umfjöllun má finna í tveimur nýjum heftum Hagtíðinda: Laun á íslenskum vinnumarkaði 2013 og Laun starfsstétta á almennum vinnumarkaði 2013. Í heftunum má meðal annars finna ítarlega umfjöllun um laun, vinnutíma og launadreifingu eftir launþegahóp, atvinnugrein og kyni á vinnumarkaðinum í heild og eftir starfsstéttum og kyni á almennum vinnumarkaði. Þá er einnig gerð grein fyrir samsetningu gagnasafnsins sem niðurstöðurnar byggja á. Á vef Hagstofunnar undir talnaefni finna nánari upplýsingar um laun og launadreifingar fyrir árin 2008-2013 eftir atvinnugreinum og launaþegahópum.

Niðurstöður byggjast á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til 70 þúsund launamanna á vinnumarkaði. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður vegna skorts á upplýsingum um tiltekna hópa. Nánari upplýsingar um niðurstöður svo sem skilgreiningar og aðferðafræði má finna í lýsigögnum á vefsvæði Hagstofunnar undir talnaefni og í Hagtíðindum.

Laun á íslenskum vinnumarkaði 2013 - Hagtíðindi

Laun starfsstétta á almennum vinnumarkaði 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni