FRÉTT LAUN OG TEKJUR 31. MARS 2015

Rúmlega helmingur fullvinnandi launamanna var með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði árið 2014 og um 45% launamanna voru með heildarlaun á bilinu 300-500 þúsund krónur. Tæplega 30% launamanna voru með heildarlaun á bilinu 500-700 þúsund og tæp 20% voru með heildarlaun yfir 700 þúsund krónur á mánuði árið 2014. Meðaltal heildarlauna var 555 þúsund krónur á mánuði, 619 þúsund hjá körlum og 486 þúsund hjá konum.

Fleiri launamenn voru með laun undir meðaltali en yfir því, eða 63% launamanna. Þá voru 75% kvenna með heildarlaun undir meðaltali en rúmlega helmingur karla. Þetta skýrist meðal annars af því að það voru fleiri útgildi til hækkunar meðaltals en lækkunar, þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör.

Dreifingu reglulegra launa, sem eru laun fyrir umsaminn vinnutíma án tilfallandi yfirvinnu og annarra greiðslna, má sjá í samanburði við dreifingu heildarlauna í töflunni hér að neðan. Þannig voru rúmlega 20% fullvinnandi launamanna með regluleg laun undir 300 þúsund en 7% voru með heildarlaun undir þeirri upphæð. Þá voru 15% karla með regluleg laun yfir 700 þúsund krónum á mánuði og 6% kvenna, en 26% karla voru með heildarlaun yfir sömu upphæð og 11% kvenna.

Dreifing reglulegra launa og heildarlauna fullvinnandi launamanna 2014
Regluleg laun Heildarlaun
  Alls Karlar Konur Alls Karlar Konur
<300 þúsund 21% 18% 24% 7% 3% 11%
300-500 þúsund 52% 49% 56% 45% 37% 55%
500-700 þúsund 16% 18% 14% 29% 34% 23%
>700 þúsund 11% 15% 6% 19% 26% 11%


Heildarlaun voru hæst hjá ríkisstarfsmönnum, en lægst hjá starfsmönnum sveitarfélaga

Á almennum vinnumarkaði voru meðallaun 580 þúsund krónur á mánuði árið 2014, heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 603 þúsund krónur og heildarlaun starfsmanna sveitarfélaga voru 442 þúsund krónur. Þá voru heildarlaun kvenna að jafnaði lægri en karla og dreifing launa þeirra var minni en dreifing launa karla. Opinberir starfsmenn teljast starfsmenn sveitarfélaga og starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir teljast til almenns vinnumarkaðar.


Hæstu launin voru í fjármála- og vátryggingastarfsemi

Árið 2014 voru heildarlaun hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi (K) en þar voru heildarlaun 763 þúsund krónur að meðaltali. Dreifing heildarlauna var einnig mest í þessari atvinnugrein. Miðgildi heildarlauna var hins vegar hæst í veitum (D), eða 705 þúsund krónur, en dreifing launa þar er minni en í fjármálageiranum og því færri gildi til hækkunar meðallauna. Heildarlaun voru lægst í fræðslustarfsemi (P) en þar voru þau 445 þúsund krónur að meðaltali og var það eina atvinnugreinin þar sem meðaltal heildarlauna náði ekki 500 þúsund krónum árið 2014. Sá fyrirvari er gerður við niðurstöður að í atvinnugreininni upplýsingar og fjarskipti (J) vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Í atvinnugreinum O, P og Q takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn.


SKÝRING: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).


Upplýsingar um laun og dreifingu launa fyrir árið 2014 hafa verið birtar á vef Hagstofunnar. Þar má finna upplýsingar sundurliðaðar eftir launþegahópi og atvinnugrein. Einnig er þar að finna upplýsingar um laun starfsstétta og um laun í hartnær 120 störfum á almennum vinnumarkaði. Þá hafa verið gerðar smávægilegar uppfærslur á tölum fyrir árið 2013.

Niðurstöður byggjast á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn og því eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður. Nánari upplýsingar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.