Eiginfjárstaða samkvæmt skattframtölum styrktist árið 2018, óháð fjölskyldugerð. Eiginfjárstaða einstaklinga styrktist frá fyrra ári um 15,6% og hjóna án barna um 13,8%. Þá styrktist eiginfjárstaða hjóna með börn um 19% og eiginfjárstaða einstæðra foreldra um 25,3% frá fyrra ári. Mest var styrkingin á milli ára í aldurshópunum 25-29 ára (43,9%) og 30-34 ára (33,6%).

Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði líkt og undanfarin ár. Árið 2018 voru 3.275 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign, eða um 26% færri en árið 2017. Eiginfjárstaða þeirra í fasteign var að meðaltali neikvæð um 6,6 milljónir króna árið 2018, sem er aukning frá fyrra ári um 1,2 milljónir króna. Til samanburðar hækkaði heildarfasteignamat á landinu öllu um 14,8% á milli áranna 2017 og 2018.

Fjöldi fjölskyldna með neikvætt eigið fé í húsnæði og heildarfasteignamat á landinu öllu Heimild fasteignamats: Þjóðskrá Íslands, á verðlagi hvers árs.

Eiginfjárstaða, eða eigið fé fjölskyldna árið 2018, var alls 4.744 milljarðar króna og jókst um 15,6% á milli ára sem er minni hækkun en árið 2017 þegar eigið fé jókst um tæp 23% milli ára. Sá tíundi hluti fjölskyldna sem á mest eigið fé, á alls um 57,5% heildarupphæðar eigin fjár, eða 2.729 milljarða króna. Eiginfjárstaða er mismunur á heildareignum og heildarskuldum.

Heildareignir fóru úr 6.065 milljörðum króna í árslok 2017 í 6.855 milljarða króna í lok árs 2018 sem er aukning um 13% milli ára. Eignir eru allar eignir fjölskyldu, þar með talið fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði. Árið 2018 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,5%, ökutækja 4,6%, bankainnistæða 11,2% og verðbréfa 7,6% og eru það sambærileg hlutföll og árið 2017. Samanlagðar eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 2.955 milljörðum króna, eða um 43% af heildareignum sem er lækkun um tæp 2% frá fyrra ári.

Skuldir námu 2.111 milljörðum króna í árslok 2018 og jukust um 7,6% frá fyrra ári. Til skulda teljast allar skuldir fjölskyldu eins og fasteignaskuldir vegna fasteignakaupa, ökutækjalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán. Skuldir hjóna með börn jukust um 8,2% og einstæðra foreldra um 7,2%. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3% og skuldir einstaklinga um 8,2%. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 834 milljörðum króna, eða um 39,5% heildarskulda.

Um niðurstöður
Hagstofan birtir árlega talnaefni um eigna- og skuldastöðu samkvæmt skattframtölum. Talnaefnið nær yfir tímabilið 1997-2018 og er samanburðarhæft hvað varðar úrvinnslu gagna en vakin er athygli á að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem getur torveldað samanburð við eldri gögn. Við samanburð á samtölum á milli ára ber að hafa í huga að skattgreiðendum hefur fjölgað og eru fjárhæðir í frétt og talnaefni á verðlagi hvers árs. Milli áranna 2017 og 2018 hækkaði vísitala neysluverðs um 2,7% að meðaltali.

Niðurstöður um eigna- og skuldastöðu byggja á fjölskyldueiningu sem er mynduð af samsköttuðum einstaklingum og börnum undir 16 ára aldri skráð á þeirra lögheimili. Vakin er athygli á því að ungir framteljendur eru skráðir sem einstaklingar frá sextán ára aldri og þurfa að telja fram sem einstaklingar þó þeir búi enn í foreldrahúsum. Fjölskyldueining skiptist þannig í einstaklinga, einstæða foreldra með börn undir 16 ára skráð á þeirra lögheimili, hjón eða samskattað sambúðarfólk án barna og hjón eða samskattað sambúðarfólk með börn undir 16 ára skráð á þeirra lögheimili. Fjölskyldueining í skattgögnum getur því vikið verulega frá fjölskyldueiningu samkvæmt þjóðskrá, enda þurfa hjón eða sambúðarfólk ekki að vera samsköttuð. Aldur í niðurstöðum miðast við elsta fjölskyldumeðlim í fjölskyldueiningu. Þær fjölskyldur sem fengu áætlaðar skattgreiðslur eru ekki hluti af niðurstöðum.

Talnaefni