Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur hækkuðu um 3,3% á milli febrúar og mars 2022. Hækkunin var mest áberandi í greinum tengdum ferðaþjónustu, um 11,4% í flutningum með flugi (H:51), 10,0% í rekstri gististaða (I:55) og 8,8% í ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum og annarri bókunarþjónustu (N:79). Á milli mars og apríl 2022 var hækkun á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum um 1,3% en hækkunin var áfram mest í ferðatengdum greinum eins og rekstri gististaða (I: 55), veitingasölu og þjónustu (I:56).
Sé horft til landshluta er vægi launasummu í einstaka atvinnugreinum af heildarlaunasummu í landshlutanum töluvert ólík eftir svæðum. Í flestum landshlutum vegur opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta (O-Q ) mest en þó ekki á Austurlandi þar sem launasumman í framleiðslu (C) vegur mest.
Þá vekur athygli en kemur kannski ekki á óvart hvað launasumman í flutningar og geymsla (H) vegur mikið á Suðurnesjum miðað við aðra landshluta og að sama skapi hvað upplýsingar og fjarskipti, fjármálastarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta (J-M) vegur mikið á höfuðborgarsvæðinu. Launasumman í rekstri gististaða er hlutfallslega ívið stærri á Suðurlandi en í öðrum landshlutum.
Staðgreiðsluskyldar greiðslur nú hluti af reglulegum hagtölum
Talnaefni um staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga, sem hefur hingað til verið birt í undirflokki tilraunatölfræði, er nú orðið hluti af reglulegum hagtölum Hagstofunnar undir efnisflokknum laun og tekjur. Hluti talnaefnis er einnig aðgengilegur undir efnisflokkunum fyrirtæki/launakostnaður, eða sá hluti sem nær til launagreiðslna og talninga á launafólki og launagreiðendum.
Samhliða breytingu úr tilraunatölfræði er niðurbrot aukið, meðal annars þar sem mat á rekjanleika var endurskoðað, og bætt við niðurbroti um landshluta en áfram birtar upplýsingar eftir sveitarfélögum. Rétt er að benda á að búseta miðast við lögheimilsskráningu einstaklinga sem fá greiddar staðgreiðsluskyldar greiðslur og að nú miðast búseta við sveitarfélagaskipan 1. janúar 2022 en tók í fyrri útgáfu mið af sveitarfélaganúmeri hvers árs.
Tímanlegir mánaðarlegir skammtímavísar
Tölur frá mars og apríl eru nýjar í þessari útgáfu og í ágúst næstkomandi verða gefnar út tölur fyrir maí og júní 2022. Þaðan í frá verður útgáfan með rúmlega eins mánaðar töf, þar sem gögn eru birt um 40 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Auk tímanleika birtingar er lögð áhersla nákvæm á gögn í miklu niðurbroti sem eru auðnýtanleg í talnaefni Hagstofunnar. Markmiðið er að uppfylla síauknar kröfur notenda um fjölbreytta möguleika á greiningum um vinnumarkað og tekjur einstaklinga.
Talnaefnið nær til janúar 2005 fyrir tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna en til janúar 2008 fyrir staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinum. Vakin er athygli á því að tölur eru bráðabirgðatölur sem geta breyst meðal annars vegna síðbúinna skila greiðenda. Það á einkum við um nýjustu mánuði talnaefnis þar sem tímanleiki birtinga er mikill.
Um staðgreiðsluskyldar greiðslur
Hagtölum um staðgreiðsluskyldar greiðslur má skipta í tvennt. Í fyrsta lagi staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (launasumma) sem eru birtar eftir atvinnugreinum og búsetu ásamt talningum á launafólki og launagreiðendum. Í öðru lagi allar staðgreiðsluskyldar greiðslur (heildarsumma) sem innihalda auk launagreiðslna aðrar staðgreiðsluskyldar greiðslur eins og greiðslur í fæðingarorlofi og bóta- og lífeyrisgreiðslur. Í því talnaefni eru birtar alls sjö tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna eftir kyni, aldri, búsetu og bakgrunni ásamt talningu á einstaklingum sem fá greiddar staðgreiðsluskyldar greiðslur.
Talnaefnið byggir í grunninn á staðgreiðsluskrá Skattsins, en þeir sem teljast greiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinbera gjalda nr. 45/1987 ber að skila mánaðarlega skilagrein með sundurliðuðum upplýsingum um hvern þann einstakling sem þeir greiða staðgreiðsluskylda greiðslu. Til að hægt sé að nýta gögnin til hagskýrslugerðar auðgar Hagstofan gögnin svo hægt sé að greina launagreiðslur frá öðrum greiðslum og bætir við atvinnugrein, kyni, aldri, búsetu og bakgrunni.