FRÉTT LAUN OG TEKJUR 16. APRÍL 2013

Stjórnendur voru með hæstu reglulegu launin á almennum vinnumarkaði árið 2012 en regluleg laun fullvinnandi stjórnenda voru 821 þúsund krónur að meðaltali. Fleiri stjórnendur voru með laun undir meðaltalinu en yfir því en helmingur hópins var með 717 þúsund krónur á mánuði eða minna en það var miðgildi hópsins. Hafa ber í huga að starfsstéttin stjórnendur er misleitur hópur hvað varðar laun en í starfsstéttinni eru bæði yfirmenn deilda og æðstu stjórnendur fyrirtækja. Regluleg laun karlkyns stjórnenda voru 872 þúsund krónur á mánuði að meðaltali en meðaltal kvenkyns stjórnenda var 684 þúsund krónur á mánuði.

Þá voru regluleg laun lægst hjá verkafólki árið 2012, en regluleg laun þeirra voru 296 þúsund krónur að meðaltali hjá fullvinnandi launamönnum. Um 60% verkafólks voru með regluleg laun undir 300 þúsund krónur á mánuði. Í starfsstéttinni eru ekki mörg útgildi til hækkunar á meðaltalinu sem sést á því að miðgildi hópsins var einungis 21 þúsund krónum lægra en meðaltalið. Regluleg laun verkakarla voru 305 þúsund krónur á mánuði að meðaltali en regluleg laun verkakvenna voru 266 þúsund krónur.


 
Skýringar (1) Stjórnendur; (2) Sérfræðingar; (3) Tæknar og sérmenntað starfsfólk; (4) Skrifstofufólk; (5) Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk; (IÐN) Iðnaðarmenn; (VERK) Verkafólk.

Stjórnendur voru einnig með hæstu heildarlaunin árið 2012 á almennum vinnumarkaði eða 904 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Heildarlaun karlkyns stjórnenda voru 964 þúsund að meðaltali á mánuði og heildarlaun kvenkyns stjórnenda voru 745 þúsund krónur. Greiddar stundir karlkyns stjórnenda voru 40 stundir á viku að meðaltali og 39,7 stundir hjá kvenkyns stjórnendum. Þá voru um 20% karlkyns stjórnenda með heildarlaun hærri en 1.200 þúsund krónur á mánuði en um 10% kvenkyns stjórnenda.

Hins vegar var afgreiðslufólk með lægstu heildarlaunin árið 2012 eða 367 þúsund krónur að meðaltali. Heildarlaun karla við afgreiðslustörf voru 394 þúsund krónur að meðaltali á mánuði og heildarlaun kvenna við afgreiðslustörf voru 333 þúsund krónur að meðaltali. Greiddar stundir voru að meðaltali 41,6 á viku, 41,9 stundir hjá körlum og 41,3 stundir hjá konum. Helmingur kvenna var með heildarlaun á bilinu 250-350 þúsund krónur á mánuði og 35% karla.


 

Heildarlaun ber að skoða með tilliti til greiddra stunda þar sem mismunandi vinnustundafjöldi getur legið að baki þeim. Árið 2012 voru greiddar stundir færri hjá konum en körlum í öllum starfsstéttum. Greiddar stundir voru flestar hjá verkafólki eða 46,5 á viku en greiddar stundir verkakarla voru 47,0 á viku að meðaltali og verkakvenna 44,9. Þar á eftir komu iðnaðarmenn með 46,4 greiddar stundir á viku. Greiddar stundir karla í hópi iðnaðarmanna voru 46,5 á viku að meðaltali og kvenna 41,5.


 

Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná til tæplega 30 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði í atvinnugreinunum framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K). Frekari umfjöllun um niðurstöðurnar má finna í nýjum Hagtíðindum um laun starfsstétta á almennum vinnumarkaði 2012. Í heftinu má meðal annars finna ítarlega umfjöllun um laun, vinnutíma og launadreifingu eftir starfsstéttum og kyni á almennum vinnumarkaði. Þá er einnig gerð grein fyrir samsetningu gagnasafnsins sem niðurstöðurnar byggja á.

Laun starfsstétta á almennum vinnumarkaði 2012  - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.