Árið 2018 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 6,6 milljónir króna að meðaltali eða að jafnaði um 553 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildartekna var 441 þúsund króna á mánuði og því var helmingur einstaklinga með heildartekjur undir þeirri upphæð og helmingur yfir. Atvinnutekjur voru um 505 þúsund krónur á mánuði að meðaltali sé horft til þeirra einstaklinga sem voru með atvinnutekjur árið 2018. Það er 5,5% hækkun frá fyrra ári. Miðgildi atvinnutekna var 447 þúsund krónur. Atvinnutekjur einstaklinga á aldrinum 25 til 74 ára voru að meðaltali 571 þúsund krónur á mánuði árið 2018 og var eitt prósent einstaklinga á þeim aldri með að jafnaði tæplega tvær milljónir króna eða meira í atvinnutekjur á mánuði.

Tekjur einstaklinga byggja á skattframtölum einstaklinga frá 16 ára aldri. Atvinnutekjur innihalda launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur en heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna sem til dæmis geta verið lífeyris- eða bótagreiðslur.

Heildartekjur hæstar í Garðabæ og á Seltjarnarnesi
Meðaltal heildartekna árið 2018 var hæst 8,5 milljónir króna á Seltjarnarnesi og 8,4 milljónir króna í Garðabæ, en það voru einu sveitarfélögin þar sem heildartekjur einstaklinga voru að meðaltali yfir 8 milljónir króna. Sé hins vegar horft til miðgildis voru heildartekjur nokkuð lægri eða rúmlega 6,2 milljónir króna í báðum sveitarfélögunum. Heildartekjur í Bolungarvík voru 7,6 milljónir króna að meðaltali árið 2018, 7,3 milljónir króna í Kjósahreppi og 7,2 milljónir króna í Kópavogi. Í sjö sveitarfélögum var meðaltal heildartekna undir 5 milljónum króna árið 2018. Lægstar voru heildartekjur í Akrahreppi 4,3 milljónir króna og 4,4 milljónir króna í Húnavatnshreppi.

Nánari sundurliðun á heildartekjum árið 2018 má finna á mynd 1 þar sem atvinnu-, fjármagns- og aðrar tekjur eru sýndar fyrir 10 fjölmennustu sveitarfélögin ásamt fyrir Bolungarvík, Seltjarnanes, Akrahrepp, Húnavatnshrepp og samtals fyrir landið allt.

Mynd 1. Sundurliðun á meðaltali heildartekna nokkurra sveitarfélaga og landinu öllu árið 2018

Skýring: Atvinnutekjur eru launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, ökutækjastyrkur, dagpeningar og hlunnindi. Auk þess telst reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna. Fjármagnstekjur eru vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar. Auk þess teljast tekjur af atvinnurekstri til fjármagnstekna. Aðrar tekjur eru lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og aðrar bótagreiðslur á borð við atvinnuleysisbætur, vaxta- og barnabætur. Auk þess teljast til annarra tekna náms- og rannsóknarstyrkir, vinningar og ýmsar aðrar tekjur. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

Einstaklingar með starfsnám á framhaldsskólastigi með hærri heildartekjur en einstaklingar með bóknám af framhaldsskólastigi
Nokkur munur var á tekjum einstaklinga eftir menntunarstigi árið 2018 eins og sjá má á mynd 2 sem sýnir miðgildi heildartekna eftir menntun fyrir aldurshópinn 25 til 74 ára. Má þar nefna mun á bóknámi og starfsnámi á framhaldsskólastigi, en einstaklingar með starfsnám á framhaldsskólastigi voru með 17,4% hærri heildartekjur en einstaklingar með bóknám af framhaldsskólastigi árið 2018. Sambærilegur munur á heildartekjum háskólamenntaðra einstaklinga með bakkalárgráðu annars vegar og meistaragráðu hins vegar var um 23%.

Einstaklingar á aldrinum 25 til 74 ára með grunnskólamenntun eða minna voru með um 5,2 milljónir króna árið 2018 sé miðað við miðgildi heildartekna eða tæplega 430 þúsund krónur á mánuði að jafnaði, einstaklingar sem höfðu lokið framhaldsskólastigi voru með 6,1 milljón krónur eða 509 þúsund krónur á mánuði og einstaklingar með háskólamenntun 7,9 milljón krónur eða um 661 þúsund krónur á mánuði. Háskólamenntaðir einstaklingar á aldrinum 25-74 ára voru þannig með 54% hærri heildartekjur en einstaklingar með grunnskólamenntun og um 30% hærri heildartekjur en einstaklingar með menntun á framhaldsskólastigi. Hafa ber í huga að samanburður á heildartekjum einstaklinga eftir menntun er óháð stöðu þeirra á vinnumarkaðnum, til dæmis hvort einstaklingur er starfandi eða atvinnulaus.

Mynd 2. Miðgildi heildartekna fyrir aldurshópinn 25-74 ára eftir menntunarstigi  2018

Ef hins vegar er horft á miðgildi heildartekna allra einstaklinga 16 ára og eldri árið 2018. Þá voru einstaklingar með grunnskólamenntun eða minna með um 4,4 milljónir króna á ári meðan einstaklingar með menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi voru með um 5,4 milljónir króna. Háskólamenntaðir voru með 7,8 milljónir króna í heildartekjur. Til samanburðar var miðgildi allra einstaklinga tæplega 5,5 milljónir.

Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan birtir ýtarlegt talnaefni á vef um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2018 skipt eftir sveitarfélögum, aldri, kyni og menntun. Um er að ræða upplýsingar um heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum, bæði meðaltöl og miðgildi en miðgildi er, eins og meðaltal, aðferð til að meta miðsækni og lýsir þar með gagnasafninu. Miðgildi heildartekna sýnir gildi þar sem helmingur einstaklinga er með heildartekjur undir gildinu en helmingur yfir. Einnig má finna á vef Hagstofunnar upplýsingar um dreifingu heildar- og atvinnutekna auk fjölda á bak við niðurstöður.

Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til ríkisskattstjóra. Undanskyldir eru þeir sem eru með handreiknað framtal, með áætlaðar tekjur, létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá. Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna í skattframtöl hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem getur haft áhrif á samanburð. Við samanburð á sveitarfélögum er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélögin eru misstór.

Talnaefni
Tekjur eftir kyni og aldri 1990 - 2018
Tekjur eftir sveitarfélögum og kyni 1990-2018 - Sveitarfélagaskipan 1. janúar 2018
Tekjur eftir sveitarfélögum og kyni 1990-2018 - Sveitarfélagaskipan hvers árs
Dreifing heildartekna eftir kyni og aldri 1990-2018
Dreifing atvinnutekna eftir kyni og aldri 1990 - 2018
Tekjur eftir menntun, kyni og aldri 1990-2018