FRÉTT LAUN OG TEKJUR 05. JÚLÍ 2021

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru um 7,1 milljón króna að meðaltali árið 2020 eða um 591 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildartekna var þó töluvert lægra eða um 5,9 milljónir króna á ári sem þýðir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 488 þúsund krónum á mánuði. Frá árinu 2017 hafa meðaltekjur hækkað árlega um rúmlega 3% en verðlagsleiðréttar heildartekjur á sama tímabili eru nær óbreyttar.

Skýring: Heildartekjur reiknaðar á verðlagi ársins 2020.

Vakin er athygli á því að niðurstöður byggja á einstaklingstekjum og margir í yngstu aldurshópunum búa enn í foreldrahúsum. Þannig voru heildartekjur árið 2020 lægstar að meðaltali í yngstu aldurshópunum eða um 117 þúsund krónur á mánuði hjá 16-19 ára og 318 þúsund krónur hjá 20 til 24 ára. Hæstar voru heildartekjurnar hins vegar í aldurshópnum 45 til 49 ára eða um 786 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Breytt samsetning heildartekna
Þrátt fyrir að heildartekjur hafi verið sambærilegar síðustu ár breyttist samsetning þeirra árið 2020 miðað við fyrri ár þar sem aðrar tekjur en laun og fjármagnstekjur jukust hlutfallslega. Heildartekjur skiptast í atvinnutekjur, fjármagnstekjur og aðrar tekjur og eru atvinnutekjur í flestum aldurshópum stærsti hluti heildartekna einstaklinga. Til annarra tekna teljast meðal annars atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- og bótagreiðslur.

Árið 2020 hækkuðu aðrar tekjur um 20,3% að meðaltali á milli ára á verðlagi ársins 2020 og fór hlutfall þeirra af heildartekjum úr um 20,6% í 24,7%. Samhliða dróst hlutfall atvinnutekna og fjármagnstekna af heildartekjum saman. Aukning á öðrum greiðslum árið 2020 má meðal annars rekja til kórónuveirufaraldursins en summa tekna vegna atvinnuleysisbóta jókst um 240% milli ára og félagsleg aðstoð um 31% á verðlagi ársins 2020. Þá var á árinu 2020 greiddur út sérstakur barnabótaauki til þeirra sem teljast framfærendur barna og sérstök heimild veitt til úttektar á séreignarsparnaði. Þær greiðslur teljast til annarra tekna.

Til atvinnutekna teljast launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, t.d ökutækjastyrkur, dagpeningar, hlunnindi og reiknað endurgjald. Til fjármagnstekna teljast til að mynda vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstar. Til annarra tekna teljast allar aðrar tekjur, til dæmis lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun, vaxta- og barnabætur, ýmsar bótagreiðslur og styrkir.

Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan hefur uppfært ítarlegt talnaefni um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2020 skipt eftir sveitarfélögum, aldri og kyni. Talnaefnið inniheldur upplýsingar um heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum þar sem sýnd eru meðaltöl, miðgildi, deifingar og fjöldi. Einnig má finna upplýsingar um dreifingu heildar- og atvinnutekna auk fjölda á bak við niðurstöður. Talnaefni um tekjur eftir menntun árið 2020 verður uppfært í haust.

Talnaefnið byggir á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til ríkisskattstjóra. Undanskildir eru þeir sem eru með handreiknað framtal, með áætlaðar tekjur, létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá. Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna í skattframtöl hefur aukið upplýsingagæði hin síðari ár og getur það haft áhrif á samanburð.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.