FRÉTT LAUN OG TEKJUR 23. DESEMBER 2015

Árið 2014 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 5,1 milljónir króna að meðaltali á ári eða 421 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 6,6% frá árinu 2013. Atvinnutekjur, sem innihalda launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur, voru 3,6 milljónir króna að meðaltali á ári eða um 300 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 5,5% frá fyrra ári. Aðrar tekjur voru rúmlega ein milljón króna árið 2014 og höfðu hækkað um 7,4% á milli ára. Ráðstöfunartekjur voru 3,7 milljónir króna á ári og höfðu hækkað um 6,7% á milli áranna 2013 og 2014.

Frá árinu 1990 hafa heildartekjur hækkað um 58% sé miðað við fast verðlag ársins 2014. Þróun ráðstöfunar- og atvinnutekna er mjög svipuð sé horft til 1990 til 2014 en ráðstöfunartekjur eru þó hærri en atvinnutekjur árin 2003 til 2010 og munar mestu árið 2007. Síðustu ár eru ráðstöfunartekjur aftur áþekkar atvinnutekjum. Mun á atvinnu- og ráðstöfunartekjum á tímabilinu 2003 og 2010 má að mestu rekja til aukinna fjármagnstekna.

Aðrar tekjur, sem innihalda meðal annars lífeyris- og bótagreiðslur, hækkuðu jafnt og þétt fram til ársins 2009 þegar þær hækkuðu mest á tímabilinu. Hækkun ársins 2009 má að mestu rekja til þess að einstaklingum var þá gert heimilt að taka út séreignasparnað sem telst til annarra tekna.

Einstaklingar á miðjum aldri með hæstar heildartekjur
Mikill munur er á heildartekjum eftir aldri. Árið 2014 voru einstaklingar á aldrinum 45 til 50 ára með hæstar tekjur en lægstu heildartekjurnar voru á aldursbilinu 16 til 19 ára. Heildartekjur hækka eftir aldri fram að miðjum aldri en fara svo lækkandi eftir það.

Hæstu tekjur hjá bæði körlum og konum eru á aldursbilinu 45 til 50 ára, sjá mynd að neðan. Á því aldursbili eru karlar hins vegar með mun hærri heildatekjur að meðaltali en konur eða 8,1 milljón króna á ári en konur 5,8 milljónir króna. Sé hins vegar horft til miðgildis sést að helmingur kvenna er með heildartekjur undir 5,1 milljón króna en helmingur karla undir 6,7 milljónum króna á ári.

Helmingur landsmanna með heildartekjur undir 400 þúsund krónur á mánuði árið 2014
Dreifing á heildartekjum árið 2014 sýnir að um helmingur þeirra sem höfðu tekjur voru með 4,8 milljónir króna á ári eða minna sem samsvarar að jafnaði 400 þúsund krónur eða minna á mánuði. Hins vegar voru 1% landsmanna með hærri heildartekjur en 21,4 milljónir króna á ári sem gera að jafnaði 1,8 milljón á mánuði.

Nokkur munur var á dreifingu atvinnutekna milli karla og kvenna árið 2014 en 5% karla var með atvinnutekjur yfir 13,1 milljón króna ári sem er rúmlega milljón króna á mánuði að jafnaði. Sé horft til atvinnutekna kvenna voru hins vegar 5% þeirra með 8,5 milljónir króna á ári eða meira, samanber töflu að neðan.

Dreifing heildar- og atvinnutekna eftir kyni 2014      
Þús. króna Heildartekjur Atvinnutekjur
  Allir Karlar Konur Allir Karlar Konur
10% 1.282 1.327 1.247 763 802 728
20% 2.310 2.375 2.203 1.509 1.659 1.396
30% 2.820 3.071 2.672 2.298 2.672 2.046
40% 3.347 3.770 3.089 3.143 3.720 2.742
50% 3.997 4.631 3.582 3.943 4.655 3.385
60% 4.799 5.598 4.199 4.760 5.555 4.064
70% 5.732 6.675 4.970 5.618 6.538 4.805
80% 6.960 8.131 5.905 6.737 7.884 5.625
90% 9.195 10.828 7.497 8.771 10.273 6.995
95% 11.864 14.244 9.261 11.042 13.101 8.459
99% 21.401 24.965 15.559 18.400 21.497 12.609
Meðaltal 5.081 5.851 4.333 4.580 5.350 3.762


Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan birtir nú talnaefni á vef um tekjur einstaklinga árin 1990-2014 skipt eftir aldri. Um er að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Einnig eru birtar dreifingar fyrir heildar- og atvinnutekjur þar sem skoðuð eru tíundamörk ásamt 95% og 99% mörkum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra. Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum upplýsingum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem getur haft áhrif á samanburð.

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.