Munur á atvinnutekjum einstaklinga á aldrinum 25 til 64 ára eftir menntunarstigi hefur heldur minnkað með árunum. Ef horft er til síðustu tíu ára má sjá að árið 2009 voru einstaklingar með starfs- og framhaldsmenntun með 19% hærri atvinnutekjur en þeir sem voru eingöngu með grunnmenntun. Árið 2019 var þessi munur kominn niður í 10%. Þá fór munur á atvinnutekjum einstaklinga með háskólamenntun og þeirra sem voru með grunnmenntun úr 61% í 39% á tíu árum. Rétt er að taka fram að á þessu tímabili hefur fjölgað hlutfallslega í hópi einstaklinga með háskólamenntun en þeim fækkað sem eru með grunnmenntun.
Í því samhengi má benda á að atvinnutekjur einstaklinga með grunnmenntun hafa aukist mest, eða um 39%, á þessu tíu ára tímabili en á sama tíma hafa atvinnutekjur einstaklinga með starfs- og framhaldsmenntun aukist um 28% og háskólamenntaðra minnst eða um 20%.
Hafa ber í huga að um er að ræða atvinnutekjur óháð vinnutíma einstaklinga. Með atvinnutekjum er hér átt við launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, ökutækjastyrk, dagpeninga og hlunnindi. Auk þess teljast reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna.
Atvinnutekjur hæstar fyrir einstaklinga með háskólamenntun
Samanburður á miðgildi atvinnutekna árið 2019 fyrir aldurshópinn 25 til 64 ára leiðir í ljós að einstaklingar með grunnmenntun voru með 5,6 milljónir króna á ári eða 467 þúsund krónur á mánuði. Til samanburðar voru einstaklingar með starfs- og framhaldsmenntun með 6,1 milljónir króna á ári eða 10% hærri atvinnutekjur og háskólamenntaðir með um 7,8 milljónir króna eða 39% hærri atvinnutekjur en þeir sem voru með grunnmenntun.
Ef einungis er skoðaður hópurinn með háskólamenntun má sjá að einstaklingar með doktorsmenntun voru til dæmis með um 54% hærri laun en einstaklingar með bakkalárgráðu. Hafa ber í huga að hóparnir sem hér eru bornir saman eru misstórir, til dæmis voru einstaklingar með doktorsgráðu á aldrinum 25 til 64 ára og einhverjar atvinnutekjur um 1.500 árið 2019 en rúmlega 20 þúsund voru með meistaragráðu.
Töluverður munur á heildartekjum eftir menntun og aldri
Árið 2019 var miðgildi heildartekna einstaklinga með grunnmenntun um 4,6 milljónir króna á ári og hækkaði um 5% á milli ára. Einstaklingar með starfs- og framhaldsmenntun voru með 5,6 milljónir króna og háskólamenntaðir með um 8,0 milljónir á ári í heildartekjur. Í báðum tilfellum hækkuðu tekjur um 3% á milli ára. Heildartekjur er samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.
Þó nokkur munur er á miðgildi heildartekna eftir menntunarstigi með tilliti til mismunandi aldurshópa. Rétt er að hafa í huga að þessi samanburður á árstekjum einstaklinga eftir menntunarstigi er óháður því hvort einstaklingar eru starfandi, atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar.
Í aldurshópnum 16 til 24 ára var meirihlutinn einungis með grunnmenntun eða um 57%. Mánaðartekjur einstaklinga á þessum aldri voru lægstar árið 2019 fyrir þá sem voru með grunnmenntun eða um 140 þúsund krónur sem skýrist meðal annars af því að margir á þessum aldri eru í hlutastarfi eða námsmenn. Um 49% einstaklinga á aldrinum 16 til 24 ára voru í hlutastarfi árið 2019 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn og 59% voru skráðir sem nemendur í skóla.
Einstaklingar með starfs- og framhaldsmenntun í sama aldurshópi voru hins vegar með um 247 þúsund krónur á mánuði eða 76% meira. Þá er nokkur munur á tekjum í aldurshópnum 55 til 74 ára, þar munar um 31% á tekjum þeirra sem eru með grunnmenntun og starfs- og framhaldsmenntun en um 41% á þeim sem eru með starfs- og framhaldsmenntun og háskólamenntun. Í þessum aldurshópi er meirihlutinn með framhalds- eða háskólamenntun eða um 67%.
Um gögnin
Gögn um hæsta menntunarstig einstaklinga eru enn í þróun og því eru niðurstöður bráðabirgðatölur. Tekjur eftir menntunarstigi eru einnig birtar eftir aldri og kyni og í þessari útgáfu hefur verið bætt við frekara niðurbroti á aldursbilum. Um er að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og hafa skilað framtali til Skattsins. Skilgreiningar á menntun eru samkvæmt alþjóðlegu menntunarflokkuninni ISCED 2011.
Hafa ber í huga við samanburð á tekjum eftir menntunarstigi að ekki er tekið tillit til ýmissa annarra áhrifaþátta, hvorki stöðu einstaklinga (hvort þeir eru á vinnumarkaði, utan vinnumarkaðar eða atvinnulausir) eða vinnutíma (í fullu starfi eða ekki). Miðgildi er, eins og meðaltal, aðferð til að meta miðsækni og lýsa þannig gagnasafninu. Miðgildi heildartekna sýnir gildi þar sem helmingur einstaklinga er með heildartekjur undir gildinu en helmingur yfir.