FRÉTT LAUN OG TEKJUR 15. DESEMBER 2016

Árið 2015 var meðaltal heildartekna einstaklinga um 5,4 milljónir króna eða um 450 þúsund krónur á mánuði. Þá var miðgildi heildartekna um 4,3 milljónir króna eða um 360 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildartekna hækkaði um 6,4% milli ára og um 63,3% yfir síðasta aldarfjórðung, sé miðað við fast verðlag ársins 2015.

Útgildi geta haft töluverð áhrif á meðaltal, til dæmis þegar fjármagnstekjur eru skoðaðar. Það á hins vegar ekki við um miðgildi og er hér að neðan átt við miðgildi tekna þegar rætt er um tekjur.

Heildartekjur hæstar í Garðabæ
Heildartekjur eru samsettar af atvinnutekjum (launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur), fjármagnstekjum og öðrum tekjum. Í heildartekjum vega atvinnutekjur langtum mest, þá aðrar tekjur og síðan fjármagnstekjur.

Heildartekjur voru hæstar í Garðabæ og Skorradalshreppi árið 2015 eða um 4,9 milljónir króna,  þá á Seltjarnarnesi og í Fjarðabyggð um 4,8 milljónir króna. Við samanburð á tekjum eftir sveitarfélögum ber að hafa í huga að fjöldi einstaklinga í safninu er mjög mismunandi, til dæmis 29 einstaklingar í Skorradalshreppi árið 2015 og 10.215 í Garðabæ sama ár.

Skýring: Miðgildi heildartekna

Ef horft er á breytingu heildartekna yfir aldarfjórðunginn 1990 til 2015 var hækkunin mest í Skorradalshreppi eða um 93%, þar á eftir í Hvalfjarðarsveit um 85% og í Tjörneshreppi um 84% sé miðað við fast verðlag 2015. Þrátt fyrir að heildartekjur í Tjörneshreppi hafi aukist einna mest voru þær eftir sem áður í lægsta tekjufimmtungi árið 2015 samanborið við önnur sveitarfélög. Minnsta breyting á tímabilinu var í Tálknafjarðarhreppi en þar jukust heildartekjur einstaklinga um 23% yfir aldarfjórðunginn. 

Skýring: Breyting á miðgildi heildartekna á föstu verðlagi 2015

Atvinnutekjur hæstar í Fjarðabyggð
Atvinnutekjur voru hæstar í Fjarðabyggð árið 2015 eða um 5,0 milljónir króna, þá í Garðabæ um 4,8 milljónir króna og Kópavogi um 4,7 milljónir króna. Á sama tíma voru atvinnutekjur lægstar í Helgafellssveit eða um 1,7 milljónir króna og Svalbarðshreppi og Húnavatnshreppi um 2,3 milljónir króna. Í þessari umfjöllun er eingöngu miðað við þá sem hafa einhverjar atvinnutekjur, svokallað skilyrt miðgildi.

Skýring: Skilyrt miðgildi atvinnutekna

Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan birtir nú talnaefni á vef um tekjur einstaklinga árin 1990-2015 skipt eftir sveitarfélögum og kyni. Birtar eru töflur eftir sveitarfélagaskipan hvers árs annars vegar og hins vegar sveitarfélagaskipan eins og hún var 1. janúar 2016. Um er að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra.

Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum upplýsingum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem getur haft áhrif á samanburð. Við samanburð á sveitarfélögum er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélögin eru mjög misstór, frá 29 einstaklingum í Skorradalshreppi árið 2015 til um 86 þúsund einstaklinga í Reykjavík sama ár.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.