FRÉTT LAUN OG TEKJUR 04. JÚLÍ 2023

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali árið 2022, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði. Það er um 9% hækkun frá fyrra ári, sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6%. Miðgildi heildartekna var um 6,6 milljónir króna á ári, sem sýnir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 554 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 10,7%, en með tilliti til raunhækkunar var hækkunin 2,2%.

Meðaltal atvinnutekna var um 5,8 milljónir, meðaltal fjármagnstekna um 0,8 milljónir króna og meðatal annarra tekna um 1,7 milljónir. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

Sveitarfélögum á Íslandi fækkaði um 5 í jafnmörgum sameiningum á árinu 2022, voru þau því 64 í lok ársins. Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi, tæpar 7,4 milljónir króna í Fjarðarbyggð, 7,3 milljónir í Kópavogi og í Reykjavík rúmlega 6,9 milljónir króna. Fjórtán sveitarfélög höfðu miðgildi heildartekna undir 6 milljónum króna og eitt var undir 5 milljónum króna.

Sé horft til meðaltals heildartekna þá er það hærra en miðgildi, tæpar 10,6 milljónir í Garðabæ og á Seltjarnanesi. Í Reykjavík er meðaltal heildartekna tæpar 8,3 milljónir króna og 8,5 milljónir króna í Hafnarfirði og Mosfellsbæ, meðan áðurnefnt landsmeðaltal er 8,4 milljónir króna. Þrettán sveitarfélög hafa meðal heildartekjur undir 7 milljónum króna og eitt þeirra undir 6 milljónum króna.

Miðgildi heildartekna eftir sveitarfélögum árið 2022 má sjá hér að neðan.

Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan hefur uppfært ítarlegt talnaefni um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2022 sundurliðað eftir sveitarfélögum, aldri og kyni. Talnaefnið inniheldur upplýsingar um heildar-, atvinnu-,fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum þar sem sýnd eru meðaltöl, miðgildi, deifingar og fjöldi. Talnaefni um tekjur eftir menntun árið 2022 verður uppfært síðar.

Talnaefnið byggir á skattframtölum einstaklinga, 16 ára og eldri, sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra. Undanskildir eru þeir sem eru með handreiknað framtal, með áætlaðar tekjur, létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá. Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna í skattframtöl hefur aukið upplýsingagæði hin síðari ár og getur það haft áhrif á samanburð.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.