Laun hækkuðu um 1% frá fyrri ársfjórðungi
Regluleg laun voru að meðaltali 1,2% hærri á fyrsta ársfjórðungi 2015 en á ársfjórðungnum á undan. Árshækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2014 var 5,9% að meðaltali, hækkunin var 4,6% á almennum vinnumarkaði og 9,4% hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 7,4% og laun starfsmanna sveitarfélaga um 11,6%.
Laun á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein og starfsstétt
Frá fyrri ársfjórðungi var hækkun reglulegra launa á bilinu 0,5% til 1,6% eftir starfsstéttum. Laun tækna og sérmenntaðs starfsfólks hækkuðu mest en laun iðnaðarmanna minnst milli ársfjórðunga. Árshækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2014 var mest hjá tæknum og sérmenntuðu starfsfólki eða um 6,6% en minnst hjá iðnaðarmönnum eða um 3,1%. Á sama tíma hækkuðu regluleg laun sérfræðinga um 5,1%, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks um 4,9% , skrifstofufólks um 4,7%, verkafólks um 4,5% og stjórnenda um 3,7%.
Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í iðnaði og samgöngum eða um 1,3%. Þá hækkuðu laun milli ársfjórðunga um 0,9% í fjármálaþjónustu, 0,8% í byggingarstarfsemi og 0,6% í verslun. Árshækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2014 var mest í samgöngum eða um 7,1% en minnst í iðnaði eða um 3,4%.
Kjarasamningar
Í vísitölu launa á fyrsta ársfjórðungi gætir áhrifa bæði nýrra og eldri kjarasamninga ríkis og sveitarfélaga við nokkur stéttarfélög.
Ekki gætir lengur áhrifa eingreiðslu sem kveðið var á um í kjarasamningum fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem voru undirritaðir á vormánuðum 2011. Kom sú eingreiðsla til útborgunar í janúar 2014 og hafði áhrif til 0,1% hækkunar vísitölu launa á ársgrundvelli.
Um vísitölu launa
Vísitala launa endurspeglar þróun reglulegra launa og er gefin út ársfjórðungslega. Birtar eru niðurstöður eftir atvinnugrein og starfsstétt á almennum vinnumarkaði en fyrir opinbera starfsmenn eru niðurstöður birtar eftir stjórnsýslustigi. Opinberir starfsmenn teljast þeir starfsmenn sem eru starfsmenn sveitarfélaga og þeir starfsmenn ríkis sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir tilheyra almennum vinnumarkaði.