FRÉTT LAUN OG TEKJUR 15. SEPTEMBER 2015

Regluleg laun voru að meðaltali 1,7% hærri á öðrum ársfjórðungi 2015 en á ársfjórðungnum á undan. Árshækkun frá öðrum ársfjórðungi 2014 var 5,7% að meðaltali, hækkunin var 4,8% á almennum vinnumarkaði og 7,8% hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 5,1% og laun starfsmanna sveitarfélaga um 11,0%.

 

Laun hækkuðu mest í verslun og samgöngum
Frá fyrri ársfjórðungi var hækkun reglulegra launa eftir starfsstétt á bilinu 0,8% til 3,3%. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest en laun iðnaðarmanna minnst milli ársfjórðunga. Árshækkun frá öðrum ársfjórðungi 2014 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki eða um 6,8% en minnst hjá iðnaðarmönnum eða um 2,7%. Á sama tíma hækkuðu regluleg laun tækna og sérmenntaðs starfsfólks um 6,3%, skrifstofufólks um 5,4%, verkafólks um 4,9%, sérfræðinga um 4,4% og stjórnenda um 3,3%.

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í atvinnugreinunum samgöngum og flutningum annars vegar og verslun og viðgerðarþjónustu hins vegar. Í þessum atvinnugreinum hækkuðu regluleg laun um 2,7% frá fyrri ársfjórðungi. Á sama tímabili hækkuðu laun um 1,7% í byggingarstarfsemi, 1,3% í iðnaði og 0,8% í fjármálaþjónustu. Árshækkun frá öðrum ársfjórðungi 2014 var mest í samgöngum eða um 7,0% en minnst í fjármálaþjónustu eða um 3,7%.

Kjarasamningar
Í vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi 2015 gætir áhrifa tvennra kjarasamninga Kennarasambands Íslands við fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2014. Þá voru undirritaðir kjarasamningar á milli Samtaka atvinnulífsins og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands þann 29. maí síðastliðinn. Áhrifa þeirra samninga gætir í vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi en þau koma þó ekki að fullu fram fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2015.

Um vísitölu launa
Vísitala launa endurspeglar þróun reglulegra launa og er gefin út ársfjórðungslega. Birtar eru niðurstöður eftir atvinnugrein og starfsstétt á almennum vinnumarkaði en fyrir opinbera starfsmenn eru niðurstöður birtar eftir stjórnsýslustigi. Opinberir starfsmenn teljast þeir starfsmenn sem eru starfsmenn sveitarfélaga og þeir starfsmenn ríkis sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir tilheyra almennum vinnumarkaði. 


Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.