FRÉTT LAUN OG TEKJUR 05. MARS 2009


Laun hækkuðu um 0,4% frá fyrri ársfjórðungi

Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 0,4% hærri á fjórða ársfjórðungi 2008 en í ársfjórðungnum á undan. Á sama tímabili lækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 0,5% að meðaltali en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 2,7%.  Frá fyrra ári hækkuðu laun um 8,3%, þar af um 6,4% á almennum vinnumarkaði og um 12,7% hjá opinberum starfsmönnum.

Laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði lækkuðu um 2,6%
Frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun verkafólks mest eða um 1,0% en laun stjórnenda lækkuðu á sama tímabili um 2,6%. Frá fyrra ári hækkuðu laun verkafólks mest eða um 10,0% en laun stjórnenda minnst, um 2,9%.

Mestar launalækkanir í fjármálaþjónustu
Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun launa í iðnaði 0,9%. Á sama tímabili lækkuðu laun í öðrum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði. Mest mældist lækkun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum, eða 3,0%. Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 8,6% en minnst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum, eða um 2,7%.

Kjarasamningar sem komu til framkvæmda á tímabilinu
Samkvæmt samkomulagi á milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, hækkuðu laun félagsmanna um 6% frá 1. september 2008.

Félag prófessora við ríkisháskóla og fjármálaráðherra undirituðu samkomulag um launahækkanir þann 26. september. Samkvæmt samkomulaginu hækkuðu laun félagsmanna um 20.300 krónur frá 1. maí og um 2,42% frá 1. september.

Landssamband lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gerðu samkomulag þann  22. október sl. sem fól í sér hækkun launa  félagsmanna um 20.300 krónur frá 1. nóvember. Sambærilegt samkomulag var undirritað á milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Tollvarðafélags Íslands.

Samkvæmt kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og helstu viðsemjenda, sem undirritaðir voru á tímabilinu frá miðjum nóvember fram í byrjun desember, hækkuðu laun félagsmanna um 20.300 krónur frá 1. nóvember 2008. Sambærilegir samningar voru undirritaðir milli annarra viðsemjenda á vettvangi sveitarfélaga.

Kjarasamningur Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var þann 5. desember sl. kom einnig til framkvæmda á tímabilinu. Samkvæmt samningnum hækkuðu laun félagsmanna um 20.500 krónur frá 1. nóvember 2008 en mánaðarlaun yfir 450.000 krónum tóku ekki breytingum samkvæmt þessu ákvæði.

Á tímabilinu komu einnig til framkvæmda ákvæði nokkurra kjarasamninga milli einstakra fyrirtækja og stéttarfélaga, m.a. í iðnaði.

Vísitala launa helstu launaþegahópa 2006-2008
Meðaltal Starfsmenn á almennum
2005=100 Alls  vinnumarkaði Opinberir starfsmenn
Breyting Breyting Breyting Breyting Breyting Breyting
frá fyrri frá fyrra frá fyrri frá fyrra frá fyrri frá fyrra
  ársfj., % ári, % ársfj., % ári, % ársfj., % ári, %
2006
1. ársfj. 4,2 9,7 4,1 9,3 4,5 10,6
2. ársfj. 1,7 9,4 1,4 8,9 2,4 10,6
3. ársfj. 3,0 11,0 3,6 11,4 1,7 10,1
4. ársfj. 1,8 11,2 1,9 11,5 1,4 10,3
Meðaltal . 10,3 . 10,3 . 10,4
2007
1. ársfj. 4,1 11,0 4,2 11,7 3,7 9,5
2. ársfj. 1,4 10,6 1,5 11,7 1,1 8,1
3. ársfj. 1,3 8,8 1,5 9,4 1,0 7,4
4. ársfj. 1,5 8,4 1,8 9,2 0,8 6,7
Meðaltal . 9,7 . 10,4 . 7,9
2008
1. ársfj. 2,8 7,1 2,6 7,5 3,1 6,1
2. ársfj. 2,6 8,5 3,1 9,2 1,6 6,7
3. ársfj. 2,2 9,4 1,1 8,9 4,8 10,7
4. ársfj. 0,4 8,3 -0,5 6,4 2,7 12,7
Meðaltal . 8,3 . 8,0 . 9,0

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.