FRÉTT LAUN OG TEKJUR 02. SEPTEMBER 2013


Launaþróun eftir launþegahópum 2005-2013

Frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta ársfjórðungs 2013 hafa regluleg laun á íslenskum vinnumarkaði hækkað um 74,6%, þar af 76,8% á almennum vinnumarkaði, 69,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 68,3% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Eins og sést á mynd 1 dró úr launahækkunum á vinnumarkaði eftir árið 2007 en það ár var árshækkun 11%. Árshækkun var minnst árið 2010 þegar laun hækkuðu að meðaltali um 3,5% á milli fyrsta ársfjórðungs 2009 og 2010. Árið 2011 jukust launahækkanir aftur og á fyrsta ársfjórðungi 2012 mældist ársbreyting 10,8%.


 

Eins og sjá má á mynd 1 var launaþróun á tímabilinu misjöfn eftir launþegahópum sem má að hluta til skýra með kjarasamningum. Til að mynda hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga um 12,7%, starfsmenn ríkis um 10,3% og starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 4,1% á fyrsta ársfjórðungi 2009. Hækkun launa starfsmanna sveitarfélaga má að hluta rekja til nokkurra ákvæða úr kjarasamningum grunnskólakennara sem komu til framkvæmda á árinu 2008 og á fyrsta ársfjórðungi 2009. Hjá flestum starfsmönnum sveitarfélaga og ríkis voru einnig ákvæði í kjarasamningum um krónutöluhækkun á launatöflum á árinu 2008 og gætir áhrifa þeirra einnig í árshækkun árið 2009. Á sama tímabili fengu engir stórir hópar á almennum vinnumarkaði samningsbundnar hækkanir en hækkunum sem kveðið var á um í mars 2009 var frestað þangað til seinna á árinu. Áhrif vegna þeirra komu því ekki að fullu fram fyrr en árið 2010.

Launabreytingar má að stærstum hluta rekja til samningsbundinna hækkana í kjarasamningum. Þannig var árshækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2011 til jafnlengdar 2012 mun meiri en ársins á undan en í þeirri árshækkun komu til framkvæmda tvær samningsbundnar hækkanir. Þá hafa kjarasamningar undanfarinna ára jafnframt kveðið á um meiri almennar hækkanir á lægstu launatöxtum. Til að mynda hækkuðu lægstu launataxtar, samkvæmt kjarasamningum Samtaka Atvinnulífsins og aðildarsamtaka Alþýðusambands Íslands, um 106,3% frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta ársfjórðungs 2013.  

Kaupmáttarþróun eftir launþegahópum
Frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta árfjórðungs 2013 hefur kaupmáttur reglulegra launa á íslenskum vinnumarkaði aukist um 2,8% eins og sjá má á mynd 2. Þar af jókst kaupmáttur launa um 4,1% á almennum vinnumarkaði en minnkaði um 0,3% hjá ríkisstarfsmönnum og um 0,9% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Kaupmáttur launa jókst á árunum 2006 og 2007 en stóð nokkurn veginn í stað árið 2008.  Árin 2009 og 2010 dró úr kaupmætti en frá árinu 2011 hefur hann aukist aftur.

Kaupmáttarþróun á mynd 2 sýnir ársbreytingar vísitölu launa eftir launaþegahópum umfram breytingar á vísitölu neysluverðs þar sem vísitala neysluverðs er umreiknuð til meðaltals ársfjórðungs. Almennt eykst kaupmáttur þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólga er meiri en launahækkanir.


Um vísitölu launa og endurskoðaðar tölur
Í talnaefni Hagstofunnar er nú birt í fyrsta skipti aukið niðurbrot á ársfjórðungslegri vísitölu launa opinberra starfsmanna, þ.e. eftir stjórnsýslustigi og nær tímaröðin aftur til ársins 2005. Opinberir starfsmenn teljast þeir starfsmenn sem eru starfsmenn sveitarfélaga og þeir starfsmenn ríkis sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir tilheyra almennum vinnumarkaði.  Vísitala launa endurspeglar þróun reglulegra launa á íslenskum vinnumarkaði og er gefin út ársfjórðungslega.

Samhliða nýrri útgáfu á launaþróun opinberra starfsmanna eftir stjórnsýslustigi hafa útreikningar á heildarvísitölu opinberra starfsmanna verið endurskoðaðir frá árinu 2011 og því breyttust fyrri útgefnar tölur vísitölu launa. Fréttir um vísitölu launa á tímabilinu og töflur í talnaefni Hagstofunnar hafa verið uppfærðar.

Talnaefni (sjá Vísitala launa helstu launþegahópa 2005-2013 )

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.