FRÉTT LAUN OG TEKJUR 03. MAÍ 2024

Frá árinu 2020 til ársins 2023 hækkaði ársmeðaltal vísitölu launakostnaðar um 26,2%. Ársmeðaltal vísitölunnar hækkaði um 8,0% á milli 2022 og 2023. Til samanburðar hækkaði ársmeðaltalið einnig um 8,0% á milli áranna 2021 og 2022 og um 8,2% á milli 2020 og 2021. Takturinn á hækkun ársmeðaltals vísitölu launakostnaðar hefur því verið mjög stöðugur síðust þrjú ár.

Samhliða útgáfu launakostnaðar á unna stund gefur Hagstofa Íslands nú út vísitölu launakostnaðar. Er þetta í fyrsta sinn sem Hagstofan birtir vísitöluna með uppfærðri aðferðafræði á vef sínum. Vísitalan er hluti af samevrópskri vísitölu launakostnaðar (e. Labour cost index) og hefur hingað til verið birt á vef Eurostat. Vísitalan verður birt ársfjórðungslega samhliða birtingu vísitölu heildarlauna og nær talnaefnið aftur til ársins 2008. Vísitalan byggir á ársfjórðungsbreytingu launakostnaðar á unna stund eftir atvinnugreinum.

Launakostnaður á unna stund
Launakostnaður á unna stund var að meðaltali 7.490 krónur á Íslandi árið 2023. Mestur var launakostnaðurinn 10.410 krónur í fjármála- og vátryggingastarfsemi en minnstur 5.560 krónur í rekstri gististaða og veitingarekstri.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa tæplega 21%
Til launakostnaðar teljast ekki aðeins greidd laun til starfsfólks heldur einnig annar launatengdur kostnaður sem launagreiðendur inna af hendi, til að mynda tryggingagjald, mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði, greiðslur vegna orlofs og veikinda og greiðslur í hina ýmsu sjóði tengda stéttarfélögum.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa var 20,7% árið 2023 og helst það hlutfall óbreytt frá fyrra ári. Frá árinu 2018 hefur hlutfallið verið á bilinu 20,4%-20,7% og því um litlar breytingar að ræða síðastliðin ár.

Hlutfall annars launakosntaðar en launa er hins vegar mjög breytilegt á milli atvinnugreina. Lægst var hlutfallið 18,8% í fasteignaviðskiptum og 18,9% í rekstri gististaða og veitingarekstri. Hæst var það 23,1% í heilbrigðis- og félagsþjónustu og 22,7% í fræðslustarfsemi.

Um gögnin
Vísitala launakostnaðar á Íslandi er íslenski hluti samevrópskrar vísitölu launakostnaðar (e. Labour cost index) og er unnin samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins nr. 450/2003. Vísitalan byggir á ársfjórðungsbreytingu launakostnaðar á unna stund. Vísitala launakostnaðar nær til allra sem fá greidd laun frá launagreiðendum sem hafa 10 eða fleiri launamenn nema þeirra sem starfa við fiskveiðar og landbúnað (A), atvinnurekstur innan heimilis til eigin nota (T) og starfsemi stofnana og félagasamtaka með úrlendisrétt (U). Grunnur vísitölunnar (100) er meðaltal ársins 2020 og breytist grunnárið fjórða hvert ár til samræmis við aðferðir samevrópsku vísitölu launakostnaðar.

Launakostnaður á unna stund (Hourly labour cost) byggir á rannsókn um launakostnað (Labour Cost Survey) sem gefin er út á fjögurra ára fresti og er ætlað að vera tímanleg vísbending um launakostnað þau ár sem rannsóknin nær ekki til. Upplýsingar um þróun og samsetningu launakostnaðar á Íslandi eftir atvinnugreinum eru samanburðarhæfar við upplýsingar um launakostnað í öðrum Evrópulöndum. Finna má upplýsingar um launakostnað í Evrópulöndum á vefsíðu Eurostat.

Launakostnaður er summa allra greiddra launa og launtengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta. Unnar stundir eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja á gögnum Hagstofunnar, einna helst launarannsókn Hagstofunnar og staðgreiðsluskyldum launagreiðslum samkvæmt stjórnsýslugögnum. Hafa verður í huga að þegar launafólk er með fastlaunasamning, sem algengt er hjá stjórnendum og sérfræðingum, geta unnar stundir verið vanmetnar þar sem ekki er haldið sérstaklega utan um yfirvinnutíma í launakerfum í þessum tilfellum. Vinnustundir geta líka verið ofmetnar, til dæmis þegar launauppbót er greidd í formi fastra yfirvinnutíma án þess að þessir tímar séu unnir.

Niðurstöður í þessari frétt byggja á bráðabirgðatölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.