FRÉTT LAUN OG TEKJUR 16. DESEMBER 2022

Hagstofan gefur í dag út nýja vísitölu, vísitölu grunnlauna. Vísitalan er liður í auknu framboði opinberra hagtalna um laun sem birtar eru eins fljótt og auðið er. Vísitala grunnlauna verður birt mánaðarlega, samtímis útgáfu launavísitölu, og ná upplýsingar aftur til janúar 2015.

Vísitala grunnlauna og launavísitala eru sambærilegar fyrir utan það að þær mæla ólíka launaliði. Vísitala grunnlauna mælir þannig einungis breytingar dagvinnulauna fyrir umsaminn vinnutíma á hverja greidda dagvinnustund á meðan launavísitala mælir, auk dagvinnu, hvers konar álags-, bónus- og vaktagreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda.

Frá janúar 2015 til október 2022 hækkaði vísitala grunnlauna um 70,4% en launavísitala um 75,8%. Ef horft til breytinga á milli mánaða, frá maí til október 2022, sést að í júlí lækkaði launavísitala þar sem aukagreiðslur drógust saman á sama tíma og grunnlaun hækkuðu. Þar sem launavísitala byggir á fleiri launaliðum, sem eru breytilegir á milli mánaða, er meira flökt í niðurstöðum launavísitölu en vísitölu grunnlauna. Samanburður á vísitölunum gefur nákvæmari mynd af launabreytingum. Sem dæmi má nefna að í september síðastliðnum var hægt að rekja um helming hækkunar launavísitölu til aukagreiðslna svo sem bónus- og vaktaálagsgreiðslna.

Aukið framboð af tímanlegum opinberum hagtölum um launaþróun
Bæði launavísitala og vísitala grunnlauna eru verðvísitölur þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki er haldið föstum á milli mælinga. Til þess að hægt sé að greina áhrif fleiri þátta á laun er jafnframt birt launaþróun samkvæmt ársfjórðungslegri vísitölu heildarlauna en í þeirri þróun gætir meðal annars áhrifa breytinga á samsetningu vinnuafls og hlutfalli yfirvinnustunda.

Vísitölurnar þrjár, vísitala grunnlauna, launavísitala og vísitala heildarlauna, byggja allar á tímakaupi en einnig eru birtar upplýsingar um launasummu og fjölda þeirra sem fá greidd laun í hagtölum um mánaðarlegar staðgreiðsluskyldar greiðslur. Þær upplýsingar geta jafnframt veitt tímanlegar vísbendingar um þróun á tekjum einstaklinga, þar með töldum launatekjum.

Þessir fjölbreyttu mælikvarðar geta gefið góða heildarmynd af launaþróun en við túlkun þarf að hafa ólíka eiginleika þeirra í huga. Þeir eru dregnir saman í töflu hér að neðan.

Að lokum er rétt að benda á það að einnig liggja fyrir tímanlegar upplýsingar um þróun launakostnaðar á Íslandi í talnaefni um ársfjórðungslega vísitölu launakostnaðar (Labour Cost Index), sem gefur kost á alþjóðlegum samanburði. Talnaefnið er birt á heimasíðu Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins og sýnir breytingu heildarlaunakostnaðar og heildarlauna á unna stund.

Breytingar á veftöflum um vísitölu launa
Samhliða auknu framboði hagtalna hafa veftöflur (PX) sem innihalda talnaefni um vísitölur launa verið uppfærðar. Áfram verður sama efni um vísitölur launa aðgengilegt þó framboð, útlit og uppsetning veftaflna breytist.

Talnaefninu er nú skipt upp í fimm hluta. Í fyrsta lagi mánaðarlegt talnaefni, sem inniheldur allar vísitölur launa, nema vísitölu heildarlauna sem er birt ársfjórðungslega, í öðru lagi ársfjórðungslegt talnaefni, sem byggir á meðaltali mánaðartalna, og í þriðja lagi árstölur þar sem finna má upplýsingar um ársmeðaltöl. Þá er flokkur sem inniheldur aðrar vísitölur sem eru byggðar á launavísitölu og loks flokkur með eldra efni sem er ekki lengur uppfært. Sjá nánar í yfirliti yfir veftöflur um vísitölu launa.

Breytingar eða nýjungar í töflum miða að því að samræma og auðvelda notkun. Helstu breytingar er varða uppsetningu veftalna (PX) eru:

  • Breytur fyrir tímabil eru sameinaðar í eina tímabreytu (dæmi: september 2022 = 2022M09 og 3. ársfjórðungur 2022 = 2022Á3). Tímabreytan verður samræmd á lóðréttum ás og raðast í valmynd með nýjasta gildi efst.
  • Töfluheiti og breytuheiti voru yfirfarin og stöðluð.
  • Árs- og ársfjórðungsmeðaltöl eru nú í sértöflum.
  • Breytur í töflum hafa fengið kóða (breytuheiti í API).
  • Slóðir að töflum breytast og hafa fengið ný px-skráarheiti.

Aðrar breytingar sem vert er að benda á eru:

  • Launavísitala, sem reiknuð er samkvæmt lögum nr. 89/1989, er áfram birt í sérstakri töflu með grunn í desember 1988, bæði í mánaðar- og árstölum.
  • Frekara niðurbrot á launavísitölu er ekki lagaleg skylda en Hagstofa hefur birt sundurliðun fyrir ýmsa hópa til þess að koma til móts við þarfir notenda. Vegna skyldleika launavísitölu og vísitölu grunnlauna eru þær vísitölur settar saman í töflu með heitinu Vísitölur launa. Þær eru með grunn í desember 2018 og nær talnaefni aftur til ársins 2015.
  • Vísitala heildarlauna er eina talnaefnið sem er ekki í mánaðartakti og er birt ársfjórðungslega. Talnaefnið nær aftur til ársins 2008 og er grunnur meðaltal ársins 2016. Aðrar ársfjórðungs- og árstölur byggja á meðaltali mánaðartalna.
  • Heildartala (alls) er birt um 20 til 24 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Hins vegar er vísitala eftir hópum (launþegahópar, starfsstéttir og atvinnugreinar) ekki birt fyrr en um 80 til 85 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Þegar launavísitalan er reiknuð (heildartala – alls) eru síðustu tvær mælingar endurskoðaðar og þær ásamt mælingum á viðmiðunarmánuði mynda gildið sem er gefið út. Sundurliðun hópa byggir hins vegar á endurskoðuðu gagnasafni.
  • Talnaefni um Kaupmáttur launa frá 1989, sem byggir á þróun launavísitölu miðað við fast verðlag, hefur verið fært undir flokkun aðrar launatengdar vísitölur. Talnaefnið heitir Launavísitala miðað við fast verðlag frá 1989.

Eldri tengingar í veftöflur aðgengilegar til 31. mars 2023
Breytingarnar sem hér er greint frá hafa í för með sér að þeir notendur sem nú þegar nota API-þjónustu Hagstofunnar til þess að sækja talnaefni um vísitölu launa þurfa að uppfæra tengingar sínar. Tengingar í eldri uppsetningu verða áfram aðgengilegar með uppfærðu talnaefni til og með 31. mars 2023.

Talnaefni - vísitölur launa

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.