Hlutfall launa af launakostnaði var 79,4% árið 2020 en hlutfall annars launakostnaðar var 20,6%. Hlutföllin eru nánast óbreytt frá fyrra ári. Launakostnaður felur í sér laun starfsfólks en einnig annan launakostnað, til dæmis kostnað vegna mótframlags í lífeyris- og séreignasjóði, orlofs og veikinda auk tryggingagjalds og greiðslna í ýmsa sjóði tengdum stéttarfélögum.
Frá árinu 2008 hefur hlutfall annars launakostnaðar aukist en það ár var hlutfallið 17,6%. Skýrist það einkum af hækkun mótframlags launagreiðenda í lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði og breytinga á tryggingagjaldi. Tryggingagjald hækkaði nokkuð í kjölfar efnahagshruns árið 2008 en hefur farið lækkandi eða staðið í stað frá árinu 2011.
Hlutfall annars launakostnaðar er mismikið eftir atvinnugreinum. Það getur meðal annars skýrst af ólíkum kostnaði vegna veikinda og að hvaða marki starfsfólk nýtir sér mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað. Hlutfall annars launakostnaðar var hæst í heilbrigðis- og félagsþjónustu (Q) um 22,3% árið 2020 og 21,7% í flutningum og geymslu (H). Lægst var hlutfallið 18,9% í fasteignaviðskiptum (L) og 19,2% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F).
Myndin sýnir samanburð á nokkrum atvinnugreinum fyrir einstök ár. Hátt hlutfall annars launakostnaðar í heilbrigðisþjónustu skýrist meðal annars af hærra hlutfalli veikinda í þeirri atvinnugrein. Við samanburð á milli ára þarf að hafa í huga að árið 2020 er mótframlag launagreiðenda á almennum vinnumarkaði í lífeyrissjóð hærra en árin á undan og þá orðið jafnt hátt og mótframlag í opinbera geiranum.
Talnaefni um launakostnaður á unna stund eftir atvinnugreinum er nú gefið út á vef Hagstofunnar í fyrsta skipti og inniheldur árlegt talnaefni frá árinu 2008. Sambærilegt og samanburðarhæft talnaefni um Ísland og önnur Evrópulönd má finna á vef hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Sjá til dæmis frétt Eurostat frá 31. mars 2021 með helstu niðurstöðum um launakostnað á unna stund í Evrópu, auk almennrar umfjöllunar um breytingar á launakostnaði á unna stund.
Nánar um launakostnað á unna stund
Launakostnaður á unna stund (Hourly labour cost) byggir á rannsókn á launakostnaði (Labour Cost Survey, LCS) og er ætlað að vera tímanleg vísbending um launakostnað þar sem rannsóknin er einungis framkvæmd á fjögurra ára fresti. Um er að ræða samanburðarhæfar upplýsingar um launakostnað og samsetningu hans í einstökum atvinnugreinum innan Evrópu, þar með talið á Íslandi.
Launakostnaður er samtala launagreiðslna og launatengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta. Útreikningar byggja á samtölu allra launa auk launatengdra gjalda niður á unna vinnustund eftir atvinnugreinum og ná til allra sem fá greidd laun frá launagreiðendum sem hafa fleiri en níu starfsmenn að meðaltali á ári.
Birtar eru niðurstöður fyrir allar atvinnugreinar nema fiskveiðar og landbúnað (A), atvinnurekstur innan heimilis til eigin nota (T) og starfsemi stofnana og félagasamtaka með úrlendisrétt (U). Atvinnugreinar byggja á fyrirtækjaskrá Hagstofunnar sem hefur verið auðguð með öðrum heimildum hjá þeim launagreiðendum sem eru í blandaðri starfsemi ef heimildir eru til staðar.
Niðurstöður eru bráðabirgðatölur og eru hluti af þróunarverkefni sem Hagstofan hefur unnið að og byggir á hagnýtingu fjölbreyttra gagna, þar á meðal staðgreiðsluskyldum launagreiðslum samkvæmt stjórnsýslugögnum. Unnar stundir eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja meðal annars á gögnum úr rannsóknum Hagstofunnar, einkum launarannsókn, og stjórnsýslugögnum.