Fréttasafn Útgáfur 29. MARS 2022

Launakostnaður á unna stund var 6.496 krónur1 á Íslandi árið 2021. Launakostnaður var lægstur í rekstri gististaða og veitingarekstri, 4.789 krónur eða 31,9 evrur, en hæstur í fjármála- og vátryggingarstarfsemi þar sem hann var 9.096 krónur á unna stund eða 60,6 evrur.

Launakostnaður í ríkjum Evrópusambandins var 29,1 evra að meðaltali og 32,8 evrur á evrusvæðinu. Af þeim ríkjum sem talnaefni Eurostat nær til var launakostnaður á unna stund hæstur í Noregi (51,1 evra), Danmörku (47,4 evrur) og á Íslandi (43,3 evrur). Af hinum Norðurlöndunum var launakostnaður lægri í Svíþjóð (39,7 evrur) og Finnlandi (35,1 evra). Lægstur var launakostnaður í Búlgaríu (7 evrur) og í Rúmeníu (8,5 evrur).

Við samanburð á launakostnaði á milli landa er rétt að hafa í huga að gengi og verðlag getur haft áhrif á stig launakostnaðar í evrum. Frekara talnaefni um Ísland og önnur Evrópulönd má finna í frétt Eurostat frá 28. mars 2022.

Nánar um launakostnað á unna stund
Launakostnaður á unna stund (Hourly labour costs) byggir á rannsókn á launakostnaði (Labour Cost Survey, LCS) og er ætlað að vera tímanleg vísbending um launakostnað þar sem rannsóknin er einungis framkvæmd á fjögurra ára fresti. Um er að ræða samanburðarhæfar upplýsingar um launakostnað og samsetningu hans í einstökum atvinnugreinum innan Evrópu, þar með talið á Íslandi. Rannsóknin nær til laungreiðenda með tíu eða fleiri starfsmenn.

Launakostnaður er samtala launagreiðslna og launatengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta. Unnar stundir eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja meðal annars á gögnum úr rannsóknum Hagstofunnar, einkum launarannsókn, og stjórnsýslugögnum. Hafa ber í huga að í einhverjum tilvikum geta vinnustundir sem liggja að baki launakostnaði verið vanmetnar, til dæmis þegar launafólk er með fastlaunasamninga, en það á einkum við um stjórnendur og sérfræðinga en í þeim tilfellum eru yfirvinnulaun hluti af launum og yfirvinnutímar ekki skráðir í launakerfi. Einnig geta vinnustundir verið ofmetnar, til dæmis þegar launauppbót er greidd í formi greiddra fastra yfirvinnutíma án þess að tímarnir séu unnir.

Niðurstöður eru bráðabirgðatölur og eru hluti af þróunarverkefni sem Hagstofan hefur unnið að en verkefnið byggir á hagnýtingu fjölbreyttra gagna. Þar á meðal staðgreiðsluskyldum launagreiðslum samkvæmt stjórnsýslugögnum.

1 Samanburður Eurostat nær ekki til atvinnugreinanna landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar auk opinberrar stjórnsýslu; almannatryggingar. Árið 2021 var launakostnaður á Íslandi 6.552 krónur að stjórnsýslunni meðtalinni.

Talnaefni á vef Eurostat

Talnaefni um launakostnað á unna stund á Íslandi

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.