Árið 2013 var hlutfall barna sem bjuggu á heimilum undir lágtekjumörkum hærra en hlutfall allra landsmanna, eða 12,2% samanborið við 9,3%. Það ár bjuggu 8,3% barna á heimili sem skorti efnisleg gæði. Lágtekjuhlutfallið og tíðni skorts á efnislegum gæðum voru svipuð á meðal barna á árunum 2010-2013 og árin 2004-2007. Árið 2012 var Ísland með næstlægsta hlutfall barna undir lágtekjumörkum í Evrópu og sjöunda lægsta hlutfall barna sem skorti efnisleg gæði.

Börn sem eiga foreldra 29 ára eða yngri búa oftar á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum og skortir efnisleg gæði en þau börn þar sem að minnsta kosti annað foreldrið er 30 ára eða eldra. Á meðal fyrri hópsins eru 36,5% undir lágtekjumörkum og 17,8% búa við skort á efnislegum gæðum.

Þá er mikill munur á hópum þegar niðurstöður eru greindar eftir heimilisgerð annarsvegar og eftir stöðu á húsnæðismarkaði hinsvegar, en þessar tvær breytur tengjast, enda eru heimili einstæðra foreldra öðrum líklegri til að vera á leigumarkaði. Árið 2013 voru 30,8% barna einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum og 25% skorti efnisleg gæði. Til samanburðar má nefna að 6,2% barna sem deildu heimili með tveimur fullorðnum voru undir lágtekjumörkum og 4,1% skorti efnisleg gæði.

Árið 2013 voru 28,2% barna sem bjuggu í leiguhúsnæði undir lágtekjumörkum og 20,6% skorti efnisleg gæði. Stærstur hluti barna á Íslandi býr á heimilum sem eru með húsnæðislán, en 7,5% þeirra barna eru undir lágtekjumörkum og 5% skortir efnisleg gæði.

Félagsvísar: Börn og fátækt - Hagtíðindi

Talnaefni