Hlutfall þeirra heimila sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2021 var 12,8% samkvæmt bráðabirgðaútreikningum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands. Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar heildarkostnaður húsnæðis nemur meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Tæplega 9% heimila í eigin húsnæði bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað samanborið við 27% heimila í leiguhúsnæði.

Byrði húsnæðiskostnaðar skiptist ekki jafnt á milli ólíkra tekjuhópa en 28,8% heimila í lægsta tekjufimmtungi voru með íþyngjandi húsnæðiskostnað á meðan hlutfallið var töluvert lægra í öðrum fimmtungum. Hlutfall heimila í lægsta tekjufimmtungi með íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur þó farið lækkandi síðustu ár og er mæling ársins 2021 sú lægsta frá árinu 2004.

Frá árinu 2016 hefur húsnæðisbyrði aukist á heimilum með börn en farið lækkandi á heimilum án barna og var hlutfallið svipað árið 2021 eða um 13%.

Um gögnin
Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Úrtak rannsóknarinnar er fengið á þann hátt að einstaklingar eru valdir með slembni úr þjóðskrá og þar með heimilið sem þeir tilheyra. Sá einstaklingur sem er valinn í úrtakið kallast valinn svarandi og veitir hann allar upplýsingar um aðstæður heimilis, sínar eigin og annarra heimilismeðlima.

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður byggir á útreikningi á byrði húsnæðiskostnaðar. Húsnæðisbyrði er reiknuð sem hlutfall ráðstöfunartekna sem er varið í húsnæðiskostnað. Eftirfarandi liðir teljast til húsnæðiskostnaðar: húsaleiga, vaxtakostnaður og verðbætur vegna lána, viðhald, viðgerðir, bruna-, og fasteignatrygging, rafmagn, hiti og fasteignagjöld. Húsaleigubætur og vaxtabætur eru dregnar frá húsnæðiskostnaði hjá þeim sem fá slíkar bætur greiddar.

Ráðstöfunartekjur (e. disposable income) eru heildartekjur heimilisins eftir skatta að meðtöldum greiðslum úr félagslega kerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins telst hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa ekki til ráðstöfunartekna í þessari rannsókn. Aðrar fjármagnstekjur, svo sem vaxtatekjur og arður af hlutabréfum, teljast hins vegar til ráðstöfunartekna.

Við túlkun niðurstaðna úr lífskjararannsókn er mikilvægt að hafa í huga að framkvæmdarár rannsóknarinnar er einu ári síðar en tekjuár hennar. Þannig byggja niðurstöður ársins 2021 á tekjum ársins 2020.

Svarhlutfall lífskjararannsóknarinnar var rúm 64% árin 2019 og 2020 en rúm 68% árið 2021. Rúmlega 3.000 heimili svara rannsókninni hvert ár.

Gildin fyrir árin 2019-2021 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni