Árið 2014 dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks en áður hefur sést í lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún var fyrst framkvæmd árið 2004. Fimmtungastuðullinn og Gini-stuðullinn eru tvær mælingar sem eru notaðar til að mæla dreifingu tekna og hafa þessir stuðlar ekki mælst lægri í lífskjararannsókninni. Fimmtungastuðullinn sýnir að tekjuhæsti fimmtungurinn var með 3,1 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en hæstur var stuðullinn 4,2 árið 2009. Gini-stuðullinn mældist 22,7 en hæstur var hann árið 2009 eða 29,6. Gini-stuðullinn væri 100 ef einn einstaklingur hefði allar tekjur samfélagsins en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Árið 2013 er nýjasta árið sem býður uppá alþjóðlegan samanburð en þá var Ísland með næst lægsta Gini- og fimmtungastuðulinn í Evrópu á eftir Noregi.


 
Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Eitt af fimm lykilmarkmiðum 2020 áætlunar ESB er að fækka þeim sem sem falla í þennan hóp en það eru einstaklingar sem eru undir lágtekjumörkum, búa við verulegan skort á efnis¬legum gæðum eða búa á heimilum þar sem vinnuþátttaka er mjög lítil. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.

Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum á Íslandi hefur ekki verið lægra eða 7,9% sem er sama hlutfall og árið 2012. Þegar lágtekjuhlutfallið er greint nánar sést að háskólamenntaðir voru ólíklegri til að vera fyrir neðan lágtekjumörk en þeir sem hafa minni menntun. Hins vegar var minni munur á þeim sem voru með grunnmenntun og þeim sem voru með framhalds- og starfsmenntun. Leigjendur voru mun líklegri til að vera fyrir neðan lágtekjumörk en húseigendur, 15,9% saman borið við 5,8%.

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2014 þar sem nánar er greint frá niðurstöðum.

Lágtekjumörk og tekjudreifing 2014 – Hagtíðindi

Talnaefni