Evrópski tölfræðidagurinn er haldinn á sunnudaginn undir kjörorðinu: „Horfðu á staðreyndirnar“. Á þessum degi vekja hagstofur í Evrópu athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna fyrir samfélög í Evrópu. Kjörorðið minnir á að lýðræðisríki þarf að standa á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðiupplýsinga.
Í tilefni dagsins opnar Hagstofa Íslands nýja vísasíðu sem mun m.a. hýsa félagsvísa og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á vef heimsmarkmiðanna er að finna mælikvarða fyrir þau markmið um sjálfbæra þróun sem heimsbyggðin öll hefur skuldbundið sig til að uppfylla. Á nýjum vef félagsvísa er að finna fjölbreytta mælikvarða félagslegrar velferðar sem skiptast í 11 víddir. Félagsvísar gefa heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar.
Víddir félagslegrar velferðar
Sé heilsuvíddin skoðuð sést á vef félagsvísa að 77% íbúa á Íslandi voru við góða heilsu árið 2018 og hefur það hlutfall haldist nokkuð stöðugt síðan mælingar hófust. Marktækur munur er á milli kynja en 73% kvenna er við góða heilsu á móti 81% karla.
Tæp 8% hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar og tæp 3% neitað sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar árið 2018. Eins og fyrri ár hefur hærra hlutfall kvenna en karla neitað sér um heilbrigðisþjónustu af fjárhagsástæðum, t.d. var hlutfallið tæp 9% hjá konum þegar kemur að tannlæknaþjónustu á móti 7% meðal karla árið 2018, en sá munur er ekki tölfræðilega marktækur. Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sem er samevrópsk rannsókn.
Hlutfall fólks sem neitar sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar
Nýr vefur félagsvísa miðar fyrst og fremst að því að miðla tölulegum upplýsingum á aðgengilegri hátt en áður. Félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012 að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Markmið vísanna nú sem áður hefur verið að auðvelda almenningi og stjórnvöldum að fylgjast með samfélagslegri þróun.