FRÉTT LÍFSKJÖR 31. JANÚAR 2019

Í sérhefti félagsvísa um innflytjendur birtir Hagstofa Íslands í fyrsta sinn sérstaka umfjöllun um félagslega velferð innflytjenda. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 þegar það var 12,6% mannfjöldans. Niðurstöðurnar benda til þess að innflytjendur hafi gott aðgengi að íslenskum vinnumarkaði, séu upp til hópa aðilar að stéttarfélagi og búi við áþekk umhverfisleg gæði og öryggi í sínu nærumhverfi og innlendir íbúar. Hins vegar mæta þeir hindrunum við að sækja sér menntun, fá síður störf við hæfi, búa við þrengri húsnæðiskost og hafi að hluta til verri fjárhagsstöðu en innlendir íbúar.

Mynd 1. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda 1996-2018

mynd 1a

Innflytjendur eru fjölbreyttur hópur sem kemur hingað til lands af ýmsum ástæðum; svo sem til þess að mennta sig, vinna, vegna fjölskyldutengsla eða eru einstaklingar á flótta. Hlutfall innflytjenda á Íslandi er nú orðið áþekkt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Að því sögðu er margt sem bendir til þess að innflytjendur á Íslandi séu frábrugðnir innflytjendum á hinum Norðurlöndunum. Til dæmis eru nær allir annarrar kynslóðar innflytjendur hérlendis á aldrinum 0-17 ára og hlutfall þeirra lægra hér en á flestum hinum Norðurlandanna, sem er til marks um stutta sögu innflytjenda á Íslandi. Það sem meðal annars einkennir innflytjendur á Íslandi er að flestir þeirra eru karlar á vinnualdri sem hafa dvalið hér í stuttan tíma. Ennfremur er fæðingartíðni meðal innflytjenda lægri en meðal innlendra íbúa. Flestir innflytjendur eiga uppruna sinn í löndum þar sem heilsa, menntun og efnahagsástand er svipað og á Íslandi og telst með því besta sem þekkist á alþjóðlegan mælikvarða.

Mynd 2. Fjöldi innflytjenda eftir lengd dvalar á Íslandi 2018

Mynd 2. Fjöldi innflytjenda eftir lengd dvalar á Íslandi 2018

Hátt hlutfall starfandi meðal innflytjenda
Niðurstöðurnar benda til þess að innflytjendur hafi gott aðgengi að íslenskum vinnumarkaði. Tölur frá 2017 sýna að hlutfallslega fleiri innflytjendur eru starfandi en innlendir. Með 95% öryggi er áætlað að á bilinu 86%-91% innflytjenda hafi verið starfandi 2017 en 79%-81% innlendra. Sambærilegar niðurstöður eru í Ísrael, Ungverjalandi og Lúxemborg þar sem hlutfall starfandi er að minnsta kosti 7% hærra meðal innflytjenda en innlendra. Niðurstöðurnar eru hins vegar ólíkar tölum frá Belgíu, Frakklandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð, þar sem hlutfall starfandi er að minnsta kosti 10% lægra meðal innflytjenda en innlendra. Hlutfall starfandi á Íslandi er hærra en í OECD ríkjunum og gildir það bæði fyrir innlenda og innflytjendur . Þó atvinnuþátttaka innflytjenda sé mikil sýna niðurstöðurnar að þeir vinni síður störf sem hæfa þeirra menntun en innlendir.

Skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla umtalsvert lægri
Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendra. Mestur er munurinn í framhaldsskóla. Hlutfallslega færri innflytjendur en innlendir byrja í framhaldsskóla við 16 ára aldur og skólasókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldursár. Ef horft er til 2017 má sjá að nærri allir innlendir á 16. aldursári sækja framhaldsskóla, en átta af hverjum 10 innflytjendum. Á 19. aldursári sóttu um sjö af hverjum 10 innlendum íbúum framhaldsskóla, en aðeins um tveir af hverjum 10 innflytjendum. Endurtekning þessa mynsturs á árunum 2008 til 2017 gefur vísbendingu um að brotthvarf úr framhaldsskóla sé algengara meðal innflytjenda en innlendra. Flestir innflytjendur sem sækja framhaldsskóla hafa dvalist hér á landi í meira en níu ár.

Mynd 3. Skólasókn í framhaldsskóla eftir bakgrunni 2017

Mynd 3. Skólasókn í framhaldsskóla eftir bakgrunni 2017

Algengara er að innflytjendur leigi og búi þröngt
Algengara er að innflytjendur séu á leigumarkaði en innlendir. Þó mælist ekki marktækur munur á byrði húsnæðiskostnaðar eftir bakgrunni flest þau ár sem tekin voru til skoðunar. Mögulega er þetta til marks um að innflytjendur sníði sér stakk eftir vexti, þar sem niðurstöðurnar sýna einnig að hærra hlutfall innflytjenda en innlendra búi þröngt. Í nýjustu tiltæku tölum frá árinu 2016 verður breyting hér á og marktækur munur mælist á byrði húsnæðiskostnaðar eftir bakgrunni. Það ár er hærra hlutfall innflytjenda sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað en innlendir.

Mynd 4. Hlutfall á leigumarkaði eftir bakgrunni 2008-2016

Mynd 4. Hlutfall á leigumarkaði eftir bakgrunni 2008-2016

Hlutfallslega færri innflytjendur eru með háar heildartekjur
Niðurstöðurnar sýna að árið 2017 var miðgildi heildartekna innflytjenda 4,9 milljónir króna á ári en 5,2 milljónir króna hjá innlendum. Þær benda til þess að hlutfallslega færri innflytjendur séu með mjög háar heildartekjur en innlendir. Innflytjendur eiga að jafnaði minni eignir og í krónum talið er sá munur meiri en á heildartekjum eftir bakgrunni. Þessi munur á eignastöðu kemur ekki á óvart ef horft er til þess að stór hluti innflytjenda hefur dvalið stuttan tíma á Íslandi. Ef miðgildi eigna er brotið niður eftir lengd dvalar má sjá að þeir sem hafa búið hér í stuttan tíma eiga minnstar eignir, á meðan þeir sem hafa búið á Íslandi í meira en níu ár eru eignameiri. Engu að síður er miðgildi eigna innflytjenda sem hafa búið á Íslandi í meira en níu ár lægra en miðgildi eigna innlendra almennt. Innflytjendur eru að jafnaði með lægri tekjur af félagslegum greiðslum en innlendir og skulda að jafnaði minna.

Mynd 5. Eignir eftir bakgrunni og lengd dvalar á Íslandi 2017

Mynd 5. Eignir eftir bakgrunni og lengd dvalar á Íslandi 2017

Torsótt að fá áreiðanlegar tölur um stöðu innflytjenda
Þegar niðurstöður félagsvísa eru túlkaðar skiptir máli að meira skilur að innflytjendur og innlenda en bakgrunnur þeirra og gæti munurinn til dæmis stafað af mismunandi aldursdreifingu og/eða kynjahlutfalli. Félagsvísarnir segja heldur ekki til um hvernig velferð innflytjenda hefur breyst við að flytjast til landsins. Að lokum er mikilvægt að hafa í huga að erfitt er að fá jafn áreiðanlegar upplýsingar um stöðu innflytjenda og stöðu innlendra. Þeir sem ekki eru skráðir inn í landið, þeir sem eru hér ólöglega, eða eru brotaþolar mansals, eru utan seilingar skráargagna og úrtaksrannsókna. Auk þess er almennt lægri svörun meðal innflytjenda í úrtaksrannsóknum. Þetta er almennt vandamál í hagskýrslugerð en skapar líklega meiri bjaga í tilfelli innflytjenda.

Félagsvísar: Sérhefti um innflytjendur - Hagtíðindi
Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281 , netfang thordis.b.borgarsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.