Hlutfall einstaklinga undir lágtekjumörkum var 9,0% árið 2023 og samsvarar það um 35.000 einstaklingum. Þeir sem eru undir lágtekjumörkum búa á heimilum þar sem ráðstöfunartekjur (e. disposable income) heimilisins eru undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna í landinu að teknu tilliti til heimilisstærðar. Ráðstöfunartekjur heimilis eru samanlagðar heildartekjur allra heimilismanna að frádregnum skatti.
Sjá má á myndinni hér að neðan hvar lágtekjumörkin lágu fyrir tvær mismunandi heimilisgerðir, annars vegar einstaklingsheimili og heimili tveggja fullorðinna með tvö börn hins vegar. Árið 2023 voru lágtekjumörk 302.000 krónur á mánuði fyrir einstaklingsheimili og 634.000 krónur á mánuði fyrir heimili sem samanstóðu af tveimur fullorðnum og tveimur börnum.
Hlutfall þeirra sem bjuggu á heimilum þar sem ráðstöfunartekjur voru undir lágtekjumörkum var nánast hið sama á meðal karla og kvenna árið 2023 eða 9,0% á meðal karla og 8,9% á meðal kvenna. Undanfarin tíu ár hefur hlutfall einstaklinga undir lágtekjumörkum verið á bilinu 7,6% til 10,1%, lægst árið 2020 og hæst árið 2017.
Hlutfall fólks undir lágtekjumörkum er lágt á Íslandi í evrópskum samanburði. Árið 2023 var hlutfallið á Íslandi, 9,0%, það lægsta í Evrópu en meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins var 16,2%. Lágtekjuhlutfallið var næst lægst í Tékklandi, eða 9,8%, og hæst í Lettlandi og Eistlandi eða 22,5%. Á Norðurlöndunum var hlutfallið næst lægst í Noregi, eða 11,5%, og hæst í Svíþjóð, 16,1%.
Menntunarstaða hefur minni áhrif en áður
Ekki var marktækur munur á lágtekjuhlutfalli árið 2023 á meðal einstaklinga 25 ára og eldri eftir menntunarstöðu. Munur á lágtekjuhlutfalli eftir menntunarstöðu hefur minnkað frá upphafi mælinga árið 2004. Frá árinu 2019 hefur ekki verið marktækur munur á lágtekjuhlutfalli eftir menntunarstigi en á tímabilinu 2004 til 2018 voru einstaklingar með grunnmenntun eða framhalds- og starfsmenntun almennt líklegri til að vera undir lágtekjumörkum en þeir sem höfðu háskólamenntun.
Staða á húsnæðismarkaði mikill áhrifaþáttur
Öll árin sem mælingar Hagstofu ná til hefur verið algengara að heimili í leiguhúsnæði væru undir lágtekjumörkum samanborið við heimili í eigin húsnæði. Niðurstöðurnar benda þannig til þess að þeir sem búa í leiguhúsnæði búi síður við fjárhagslegt öryggi en þeir sem búa í eigin húsnæði. Árið 2023 var hlutfall heimila í leiguhúsnæði þar sem heimilismenn voru undir lágtekjumörkum 18,8% samanborið við 6,4% heimila í eigin í húsnæði.
Árið 2023 var lágtekjuhlutfall á meðal heimila á höfuðborgarsvæðinu 9,4% samanborið við 7,9% á meðal heimila utan höfuðborgarsvæðis. Munurinn er þó ekki marktækur og á það einnig við um fyrri ár.
Hugtakaskýringar
Lágtekjumörk eru fjárhæð sem samsvarar 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu í viðkomandi landi. Þeir sem eru undir lágtekjumörkum hafa lágar tekjur í samanburði við aðra, þ.e. búa á heimilum þar sem ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu. Þegar talað er um lágtekjuhlutfall er verið að vísa í hlutfall einstaklinga sem eru undir lágtekjumörkum.
Ráðstöfunartekjur eru samanlagðar heildartekjur allra heimilismanna á mánuði að frádregnum skatti. Greiðslur úr félagslega kerfinu eru meðtaldar. Hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa telst ekki til ráðstöfunartekna samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins og þar með í lífskjararannsókninni. Aðrar fjármagnstekjur, svo sem vaxtatekjur og arður af hlutabréfum, teljast hins vegar til ráðstöfunartekna.
Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru upphæð ráðstöfunartekna heimilis með tilliti til heimilisstærðar. Heimilisstærð er mæld í svokölluðum neyslueiningum og við útreikning á þeim er notast við jafngildiskvarða OECD (e. modified OECD equivalence scale). Kvarðinn tekur tillit til þeirrar hagkvæmni sem fæst þegar fleiri en einn búa undir sama þaki og gerir auk þess ráð fyrir því að útgjöld vegna barna séu lægri en útgjöld vegna fullorðinna.
Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru reiknaðar á eftirfarandi hátt:
Heildartekjur heimilisins eru reiknaðar með því að leggja saman ráðstöfunartekjur allra heimilismanna.
Hverjum heimilismanni er gefið gildi samkvæmt OECD-jöfnunarskalanum. Fyrsti fullorðni einstaklingurinn á heimilinu fær gildið 1,0 en aðrir einstaklingar 14 ára eða eldri fá gildið 0,5 hver og börn yngri en 14 ára fá gildið 0,3 hvert. Gildin eru svo lögð saman til að fá jafnaða heimilisstærð, eða neyslueiningar. Heimili með tvo fullorðna og tvö ung börn fær þannig gildið 2,1 (1,0 + 0,5 + 0,3 + 0,3).
Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru fengnar með því að deila heildartekjum heimilisins með neyslueiningum. Niðurstöðunni er svo úthlutað til allra heimilismanna.
Hjón með ung tvö börn sem hafa 500 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði hafa 238 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á neyslueiningu (500.000 krónur / 2,1).
Um tölurnar
Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofunnar. Rannsóknin er hluti af EU-SILC; samræmdri lífskjararannsókn Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Tilgangurinn er að afla greinagóðra og samanburðarhæfra upplýsinga um tekjur og lífskjör almennings.
Þátttakendur eru valdir með slembni úr þjóðskrá og þar með heimilið sem þeir tilheyra. Í úrtökurammanum eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar, 16 ára og eldri, sem eiga lögheimili á Íslandi. Sá sem lendir í úrtakinu veitir upplýsingar um aðstæður heimilis, sínar eigin og allra annarra heimilismeðlima. Upplýsingar um tekjur eru fengnar úr skattskrá.
Við túlkun á niðurstöðum ber að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða og því er gert ráð fyrir óvissu. Með því að hafa öryggisbil til hliðsjónar er hægt að leggja mat á hversu nákvæmlega úrtaksgildið segir til um hið raunverulega gildi í þýðinu. Öryggisbilin má finna í samsvarandi töflum á vef Hagstofunnar.
Gildin fyrir árin 2021-2023 eru bráðabirgðatölur.