FRÉTT LÍFSKJÖR 23. SEPTEMBER 2020

Eiginfjárstaða, eða eigið fé fjölskyldna, heldur áfram að styrkjast og var eigið fé samtals um 5.176 milljarðar króna árið 2019 sem er aukning um 9,1% á milli ára. Þó er það minni hækkun en síðustu ár að undanskildu árinu 2013. Eignir aukast meira en skuldir eða um 8,6% á meðan skuldir aukast um 7,3%.

Heildareignir jukust um 8,6% á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 6.855 milljörðum króna í 7.442 milljarða króna. Eignir teljast sem allar eignir fjölskyldu, þar með talið fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði. Árið 2019 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,9%, ökutækja 4,3%, bankainnistæðna 11,1% og verðbréfa 7,5% og voru litlar breytingar frá fyrra ári. Eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 3.267 milljörðum króna eða um 43,9% af heildareignum sem er nánast sama hlutfall og árið 2018 (44,6%).

Heildarskuldir töldu 2.266 milljarða króna í árslok 2019 sem er aukning um 7,3% frá fyrra ári. Skuldir eru skilgreindar sem allar skuldir eða heildarskuldir fjölskyldu og falla þar undir fasteignaskuldir, ökutækjalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán. Skuldir hjóna með börn jukust um 7,9% og einstæðra foreldra um 7,6%. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3% og skuldir einstaklinga um 7,4%. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 882 milljörðum króna eða um 38,9% heildarskulda.

Um niðurstöður
Hagstofan birtir árlega talnaefni um eigna- og skuldastöðu samkvæmt skattframtölum. Talnaefnið nær yfir tímabilið 1997-2019 og er samanburðarhæft hvað varðar úrvinnslu gagna en vakin er athygli á að forskráning gagna skattframtala hefur aukið gæði upplýsinga hin síðari ár sem getur torveldað samanburð við eldri gögn. Við samanburð á samtölum á milli ára ber að hafa í huga að skattgreiðendum hefur fjölgað og að fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs. Á milli áranna 2018 og 2019 hækkaði vísitala neysluverðs um 3,0% að meðaltali.

Niðurstöður um eigna- og skuldastöðu byggja á fjölskyldueiningu sem er mynduð af samsköttuðum einstaklingum og börnum undir 16 ára aldri með sama lögheimili. Vakin er athygli á því að ungir framteljendur eru skráðir sem einstaklingar frá sextán ára aldri og þurfa að telja fram sem einstaklingar þó þeir búi enn í foreldrahúsum.

Fjölskyldueining skiptist þannig í einstaklinga, einstæða foreldra með börn undir 16 ára með sama lögheimili, hjón eða samskattað sambúðarfólk án barna og hjón eða samskattað sambúðarfólk með börn undir 16 ára með sama lögheimili. Fjölskyldueining í skattgögnum getur því vikið verulega frá fjölskyldueiningu samkvæmt þjóðskrá enda þurfa hjón eða sambúðarfólk ekki að vera samsköttuð. Aldur í niðurstöðum miðast við elsta fjölskyldumeðlim í fjölskyldueiningu. Þær fjölskyldur sem fengu áætlaðar skattgreiðslur eru ekki hluti af niðurstöðum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.