TALNAEFNI LÍFSKJÖR 23. SEPTEMBER 2025

Heildareignir einstaklinga á Íslandi árið 2024 námu 12.714 milljörðum króna og jukust þær um 6,6% frá 2023 eða úr 11.925 milljörðum króna. Aukning var 0,7% sé leiðrétt miðað við verðlag ársins 2024 (ársmeðaltal vísitölu neysluverðs). Hlutur fasteigna í heildareignum taldi 9.897 milljarða króna og hækkaði að nafnverði um 5,1% á milli ára.

Heildarskuldir voru 3.252 milljarða króna árið 2024 en árið 2023 voru skuldir 3.057 milljarðar króna. Er þetta aukning um 6,4% en raunlækkun er um 0,7% sé verðlagsleiðrétt.

Meðaltal eigna var 55,5 milljónir króna á framteljanda og miðgildi 28,1 milljón, meðalskuldir töldu 14,2 milljónir króna og miðgildi var 1,1 milljón. Eigið fé jókst úr 8.868 milljörðum í 9.461 milljarð á milli áranna 2023 og 2024 en aukning skýrist að mestu leyti af hækkun eigna umfram skulda.

Eignir teljast sem allar eignir fjölskyldu, þ.m.t. fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði. Tölur frá og með 2011 hafa verið uppfærðar í samræmi við aðferð Hagstofunnar við mat á íbúafjölda, sjá nánar í skýringum við hverja töflu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.