Rúmlega fjórðungur heimila (26,4%) var á leigumarkaði árið 2016 eða áætlað um 35.100 heimili. Á sama tíma voru 73,6% heimila í eigin húsnæði eða um 97.500 heimili. Af heimilum með börn voru 22,5% á leigumarkaði en meðal barnlausra heimila var hlutfallið hærra eða 28,8%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands fyrir árin 2004-2016.
Fólk sem var eitt í heimili var mun líklegra til að vera á leigumarkaði en á heimilum þar sem voru tvö fullorðin eða fleiri. Árið 2016 var 41,0% einstaklingsheimila á leigumarkaði (95% öryggismörk +/- 4,8%), 48,3% karla sem bjuggu einir (+/- 6,8%) og 32,5% kvenna í sömu stöðu (+/- 6,6%). Um helmingur einstæðra foreldra (51,8%) bjó í leiguhúsnæði árið 2016 (+/- 8,7%).
Fleiri tekjulágir á leigumarkaði
Þegar litið er á stöðu fólks í lægsta fimmtungi ráðstöfunartekna árið 2016 voru 44,2% á leigumarkaði (+/- 4,7%) á meðan hlutfallið var 6,6% í hæsta tekjufimmtungi (+/- 2,1%). Af þessu má sjá að eftir því sem ráðstöfunartekjur eru hærri, því lægra hlutfall er á leigumarkaði, að jafnaði. Þegar staðan árið 2016 er borin saman við árið 2004, þegar lífskjararannsóknin var fyrst lögð fyrir, jókst hlutfall leigjenda í lægsta tekjufimmtunginum um 77%. Hins vegar var ekki marktæk breyting á hlutfalli leigjenda í þeim hópi sem hafði hæstar tekjur milli áranna tveggja.
Eitt af hverjum fimm börnum í leiguhúsnæði
Hlutfall fólks á leigumarkaði árið 2016 tengdist einnig aldri. Hæst var hlutfall á leigumarkaði meðal fólks á aldrinum 25-34 ára eða 38,8% (+/- 4,5%), en lægst í elstu aldurshópunum. Um 22,8% barna 0-17 ára bjó í leiguhúsnæði árið 2016 (+/- 2,9%). Þetta er vöxtur um 85% miðað við árið 2004 er hlutfallið var 12,3% (+/- 2,1%).
Skýringar
Til barna á heimili heyra allir þeir sem eru undir 18 ára aldri og þeir sem eru 18–24 ára, eru án vinnu og búa hjá að minnsta kosti öðru foreldri. Fullorðnir teljast þeir sem ekki falla undir skilgreininguna um börn.
Til einkaheimila á leigumarkaði teljast öll heimili á leigumarkaði, hvort sem þau greiddu fulla leigu, niðurgreidda eða enga.
Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur heimilisins eftir skatta að meðtöldum félagslegum greiðslum. Samkvæmt skilgreiningu Eurostat telst hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa ekki til ráðstöfunartekna í þessari rannsókn. Aðrar fjármagnstekjur, svo sem vaxtatekjur og arður af hlutabréfum, teljast hins vegar til ráðstöfunartekna. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn býr undir sama þaki. Þeirri tekjudreifingu er skipt í 5 jafn stóra hluta, svokölluð fimmtungabil.
Um gögnin
Lífskjararannsókn Hagstofunnar er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í 5 þúsund heimili árlega. Árið 2016 var haft samband við 4.430 heimili og af þeim svöruðu 2.870 svo að svarhlutfallið var 64,8%. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má finna í lýsigögnum .
Athugasemd
Öryggisbil fyrir heimili á leigumarkaði eru +/- 2,0%, fyrir heimili með börn +/- 2,7%, og heimili án barna +/- 2,9%.