FRÉTT LÍFSKJÖR 15. OKTÓBER 2018

Fimmtungur fólks á aldrinum 25-29 ára bjó í foreldrahúsum árið 2016 (20,3%, 95% öryggisbil +/- 3,5%), 24,8% karla (+/- 5,2%) og 15,6% kvenna (+/- 4,4%). Munurinn milli karla og kvenna er tölfræðilega marktækur sé litið til lengri tíma en ekki fyrir einstök ár. Til dæmis  bjuggu að meðaltali 26,8% karla á aldrinum 25-29 ára (+/- 3,9%) í foreldrahúsum og 14,3% kvenna á sama aldursbili (+/- 2,8%) þegar meðaltal áranna 2014-2016 er skoðað og er sá munur tölfræðilega marktækur. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtum niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands.  

Hlutfall fólks á aldrinum 25-29 ára sem býr í foreldrahúsum er breytilegt eftir Evrópulöndum. Árið 2016 reyndist hlutfallið hæst í Króatíu (74,5%) en meðaltalið innan Evrópusambandsins var 38,6%. Hlutfallið á Íslandi (20,3%) var áttunda lægsta af þátttökulöndum lífskjararannsóknarinnar en meira en tvöfalt hærra en á hinum Norðurlöndunum sem röðuðu sér í fjögur lægstu sætin. Í Danmörku bjuggu tæp 5% fólks á aldrinum 25-29 ára í foreldrahúsum, 6% í Finnlandi og 9% í Svíþjóð og Noregi. 

Heimild: Eurostat.

Á Íslandi flytja konur fyrr úr foreldrahúsum en karlar, eins og í Evrópu allri. Þegar litið er á aldurshópinn 20-29 ára reyndust 34,4% kvenna (+/-4,4%) og 44,1% karla (+/- 4,9%) búa í foreldrahúsum árið 2016. Þegar þróunin er skoðuð frá upphafi lífskjararannsóknarinnar, árið 2004, sést að hlutfall ungra kvenna í foreldrahúsum hefur aukist síðan það var lægst árið 2005 (23,0% +/- 3,2). Hlutfall ungra karla í foreldrahúsum hefur nokkurn veginn staðið í stað á sama tímabili.

Um gögnin
Lífskjararannsókn Hagstofunnar er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í 5 þúsund heimili árlega. Árið 2016 var haft samband við 4.430 heimili og af þeim svöruðu 2.870 svo að svarhlutfallið var 64,8%. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má lesa hér.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1285 , netfang Thora.Thorsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.