Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands verða íbúar á Íslandi 550 þúsund árið 2075 og gætu orðið 500 þúsund innan 16 ára. Íbúum á Íslandi fjölgar úr 389 þúsund árið 2025 í 450-700 þúsund á næstu 50 árum. Samkvæmt hæsta spáafbrigði myndi mannfjöldi á Íslandi ná 500 þúsund íbúum árið 2037.
Gert ráð fyrir eftirfarandi breytingum samkvæmt mannfjöldaspánni:
- Hlutfall íbúa á vinnualdri (16 til 74 ára) mun lækka úr 74% árið 2025 í 70% árið 2075 samkvæmt miðgildi spárinnar.
- Eftir 2052 verður elsti aldurshópurinn (eldri en 65 ára) fjölmennari en sá yngsti (yngri en 20 ára) samkvæmt miðgildi spárinnar.
- Miðgildi aldurs landsmanna var 37 ár árið 2025. Gert er ráð fyrir að það verði 52 ár árið 2075 samkvæmt miðspá en mun lægra samkvæmt lægstu spá eða 48 ár. Þá verður miðgildið 53 ár árið 2075 ef miðað er við hæstu spá.
Samkvæmt miðgildi spárinnar verður frjósemishlutfall 1,4 barn á hverja konu (13-55 ára) árið 2075 eða á bilinu 1,3 til 1,5 börn með 90% líkum. Til samanburðar var meðalfrjósemishlutfall innan Evrópusambandsins 1,4 börn á hverja konu árið 2022. Samkvæmt miðgildi spárinnar aukast lífslíkur kvenna við fæðingu og verða 89 ár árið 2075, samanborið við 84 ár árið 2024, og lífslíkur karla aukast úr 81 ári í 84 ár, þ.e. aukast um 0,1 ár fyrir hvert ár spárinnar.
Öldrun þjóðarinnar stafar af minnkandi frjósemi og auknum lífslíkum. Þessi þróun er þó hægari á Íslandi en í ríkjum ESB vegna ungs aldurs erlendra ríkisborgara sem flytjast til landsins og hás frjósemishlutfalls miðað við meðaltal innan sambandsins. Miðgildi aldurs í ríkjum ESB var 44 ár árið 2021 en til samanburðar er ekki gert ráð fyrir að því gildi verði náð hér á landi fyrr en árið 2050 samkvæmt miðspánni.
Um gögnin
Mannfjöldaspá Hagstofunnar byggir á líkönum um frjósemi, dánartíðni og búferlaflutninga. Niðurstöðurnar sýna fimm spáafbrigði og tilheyrandi óvissu (e. conditional forecasts with uncertainty bands) byggt á mismunandi sviðsmyndum um fólksflutninga. Þessar sviðsmyndir eru skilgreindar af fyrirfram ákveðnum takmörkunum á miðgildi aðfluttra umfram brottflutta á bilinu eitt til sjö þúsund manns á ári en fylgja mismunandi þróun. Fimmtíu ára meðaltal hvers afbrigðis fólksflutninga getur náð frá tveimur og upp í fimm þúsund einstaklinga. Spáin felur ekki í sér áhrif hugsanlegra áfalla af náttúrulegum, félagslegum eða efnahagslegum orsökum.