FRÉTT MANNFJÖLDI 16. JÚNÍ 2017

Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn tölur um umsækjendur um alþjóðlega vernd, þ.e. hælisleitendur, og þá sem fengu slíka vernd á Íslandi á árunum 1997 til 2016. Auk þess eru birtar tölur um nýútgefin dvalarleyfi til útlendinga utan EES-svæðisins frá 2008 til 2016.

Þeim sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Framan af tímabilinu sem hér um ræðir (1997–2016) voru þetta innan við 10 manns, rétt tæplega 20 manns fram til ársins 2013 en fjölgaði hratt eftir það. Árið 2016 var 173 flóttamönnum veitt hæli á Íslandi.

Þeim sem sóttu um alþjóðlega vernd á þessu tímabili hefur einnig fjölgað hratt hin síðari ár. Árið 2016 sóttu 1.100 manns um hæli sem flóttamenn. Langflestir umsækjendur voru frá Makedóníu og Albaníu, en þeim er þó oftast neitað um alþjóðlega vernd. Jafnvel þótt þessir umsækjendur væru ekki taldir með hefur hælisleitendum fjölgað umtalsvert.

Fjöldi nýrra dvalarleyfa til ríkisborgara utan EES-svæðisins dróst mjög saman frá 2008 til 2011, einkum fækkaði slíkum dvalarleyfum vegna atvinnu eða fjölskyldusameiningar. Frá 2012 hefur fjöldi dvalarleyfa vaxið, einkum vegna náms eða alþjóðlegrar verndar. Árið 2016 voru gefin út 1.469 dvalarleyfi. Af þeim var um 61% vegna náms eða fjölskyldusameiningar, en önnur leyfi skiptust milli atvinnuleyfa og dvalarleyfa af öðrum ástæðum. Flestir sem fá dvalarleyfi hér á landi eru frá Asíu, en Ameríkubúar fylgja fast á hæla þeim.

Skilgreiningar
Umsækjandi um alþjóðlega vernd (hælisleitandi): Útlendingur sem óskar eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur hér á landi.

Flóttamannsstaða: Útlendingi er veitt hæli með réttarstöðu flóttamanns hafi hann ástæðuríkan ótta um að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd heimalands síns.

Viðbótarvernd: Útlendingi sem ekki hefur fengið stöðu flóttamanns er veitt dvalarleyfi ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskennds ofbeldis vegna vopnaðra átaka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir þegar um er að ræða ríkisfangslausan einstakling.

Mannúðarsjónarmið: Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt hafi útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til, þó svo að skilyrði um alþjóðlega vernd séu ekki uppfyllt.

Flóttafólk í boði stjórnvalda: Hópar flóttafólks sem kemur til landsins í boði stjórnvalda, og fær réttarstöðu flóttamanns, stundum nefnt „kvótaflóttafólk“. Á ensku nefnist þetta fólk „resettled persons“.

Ný dvalarleyfi: Með nýjum dvalarleyfum er átt við dvalarleyfi til útlendinga sem ekki hafa áður fengið dvalarleyfi eða þar sem lengra en 6 mánuðir eru frá því síðasta dvalarleyfi rann út.

Aðrar athugasemdir: Kyn hælisleitenda var ekki skráð hjá Útlendingastofnun árin 1997 til 2008. Við vinnslu þessara gagna var leitast við að merkja við kynið, m.a. með aðstoð uppflettinga á leitarsíðunni Google.
Tölur um veitingu alþjóðlegrar verndar innihalda bæði ákvarðanir Útlendingarstofnunar og niðurstöðu eftir kæruferli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.