FRÉTT MANNFJÖLDI 14. FEBRÚAR 2005

Árið 2004 voru skráðar 65.576 breytingar á lögheimili í þjóðskrá. Í 55.613 tilvika var um að ræða búferlaflutninga innanlands, 5.199 fluttust til landsins og 4.764 frá því.

Innanlandsflutningar 
Flutningstíðni í flutningum innanlands, mæld sem flutningar á hverja 1.000 íbúa, var 190,1 á árinu 2004. Nær tveir af hverjum þremur flutningum innanlands urðu vegna flutninga innan sveitarfélags (35.647). Í hlutfalli við fólksfjölda hafa flutningar innan sveitarfélags aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum; voru 92,9 á 1.000 íbúa á árabilinu 1986-1990 en 121,8 árið 2004. Á árinu fluttu 37,7 á hverja 1.000 íbúa búferlum milli sveitarfélaga innan sama landsvæðis en 30,5 á hverja 1.000 fluttust milli landsvæða.

Ef einungis er tekið mið af innanlandsflutningum milli landsvæða voru aðfluttir 615 fleiri en brottfluttir til höfuðborgarsvæðisins árið 2004, 47 til Suðurnesja og 60 til Suðurlands. Til annarra landsvæða voru brottfluttir fleiri en aðfluttir.

Mynd 1 sýnir tíðni flutningsjöfnuðar í innanlandsflutningum til einstakra landsvæða (aðfluttir umfram brottflutta innanlands á 1.000 íbúa á aðflutningsvæði) árabilin 1996-2000 og 2001-2003 samanborið við 2004. Öll árin var flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum jákvæður á höfuðborgarsvæðinu, tíðni aðfluttra umfram brottflutta var 3,4 á hverja 1.000 íbúa árið 2004 sem er jafnhátt og árin 2001-2003 en talsvert lægra en árin 1996-2000 (8,8 á 1.000). Frá öðrum landshlutum voru brottfluttir fleiri en aðfluttir tímabilin 1996-2000 og 2001-2003. Mestur var brottflutningur frá Vestfjörðum, á árabilinu 1996-2000 fluttust að jafnaði 40 af hverjum 1.000 íbúum frá Vestfjarða til annarra landshluta. Brottflutningstíðnin var 20,3 á hverja 1.000 íbúa 2001-2003 og 27,6 árið 2004. 

Af þeim sem fluttu búferlum milli sveitarfélaga á árinu 2004 fluttust flestir til Hafnarfjarðar. Þar voru aðfluttir umfram brottflutta í innanlandsflutningum 501 sem samsvarar því að 23,2 af 1.000 íbúum sveitarfélagsins hafi flutt þangað á árinu. Utan höfuðborgarsvæðis voru aðfluttir umfram brottflutta flestir í Sveitarfélaginu Árborg 142 (22 á 1.000 íbúa) og í Hveragerði 97 (49 á 1.000 íbúa).

Flutningar milli landa
Flutningar milli landa hafa verið háðir mun meiri sveiflum en innanlandsflutningar. Undir lok 10. áratugarins fluttust jafnan talsvert fleiri til landsins en frá því. Hámarki náði fjöldi aðfluttra árið 2000, þá fluttust 5.203 til landsins en 3.489 frá því; tíðni aðfluttra umfram brottflutta í millilandaflutningum var 6.1 á 1.000 íbúa. Eftir aldamótin 2000 dró úr flutningum til landsins og fjölgaði brottfluttum að sama skapi og árin 2002 og 2003 voru brottfluttir frá landinu fleiri en aðfluttir. Árið 2004 voru aðfluttir aftur á móti 435 fleiri en brottfluttir (1,5 á hverja 1.000 íbúa).

Allmikill munur hefur verið á flutningum íslenskra og erlendra ríkisborgara til og frá landinu. Flest ár hafa fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess (mynd 3). Árið 2004 voru brottfluttir Íslendingar 455 fleiri en aðfluttir samanborið við 613 árið 2003. Þessu var öfugt farið með erlenda ríkisborgara; útlendingar í flutningum til landsins voru 890 fleiri en brottfluttir. Aðeins einu sinni frá árinu 1986 hafa fleiri útlendingar flutt frá landinu en til þess.

Allt frá því um miðbik 10. áratugarins hafa flestir þeirra útlendinga sem fluttust búferlum til Íslands verið með pólskt ríkisfang. Árið 2004 varð hér breyting á; langflestir útlendingar sem hingað fluttust voru frá Portúgal (520), Pólverjar voru 233, Ítalir 164 og Danir 154. 

Athugun á flutningum frá útlöndum til einstakra landsvæða leiðir í ljós mjög ólíkt mynstur frá því sem sjá má í innanlandsflutningum. Í hlutfalli við fólksfjölda hafa aðfluttir umfram brottflutta í flutningum til höfuðborgarsvæðisins frá útlöndum verið fremur fáir; flutningsjöfnuðu var 2,1 á 1.000 íbúa tímabilið 1996-2000 , 0,3 árin 2001-2003 og -0,6 á 1.000 2004. Athygli vekur einnig að á Vestfjörðum, þar sem brottflutningur er mestur í innanlandsflutningum, hefur flutningsjöfnuður í millilandaflutningum jafnan verið hærri en annars staðar á landinu. Þetta á einkum við um tímabilið 1996-2000 en þá var flutningsjöfnuður í millilandaflutningum 10,2 á hverja 1.000 íbúa á Vestfjörðum. Árið 2004 var flutningsjöfnuður í millilandaflutningum langmestur á Austurlandi, hvorki meira né minna en 43 á hverja 1.000 íbúa, samanborið við 1,9 á 1.000 árið 2003 og 1,8 á árabilinu 1996-2000.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.