FRÉTT MANNFJÖLDI 08. FEBRÚAR 2006

Árið 2005 hefur einkennst af umfangsmiklum búferlaflutningum milli landa. Aðfluttir umfram brottflutta í millilandaflutningum voru 3.860 þetta ár. Ári áður nam þessi tala 530 íbúum. Í öllum landshlutum voru aðfluttir fleiri en brottfluttir í millilandaflutningum. Þar munar mestu um flutninga til Austurlands en þar var flutningsjöfnuður (aðfluttir umfram brottflutta) í millilandsflutningum rúmlega 115 á hverja 1.000 íbúa. Ef einungis er tekið mið af  innanlandsflutningum til Austurlands vekur athygli að brottfluttir Austfirðingar voru fleiri en aðfluttir. Þá vekur athygli að á höfuðborgarsvæðinu í heild voru brottfluttir í innanlandsflutningum heldur fleiri en aðfluttir. Mestur tilflutningur innanlands var til landsvæða næst höfuðborgarsvæðinu, einkum á Suðurnesjum.

Árið 2005 voru skráðar 68.335 breytingar á lögheimili í þjóðskrá. Í 56.649 tilvika var um að ræða búferlaflutninga innanlands, 7.773 fluttu til landsins og 3.913 frá því. Nær tveir af hverjum þremur flutningum innanlands urðu vegna flutninga innan sveitarfélags (35.758). Í hlutfalli við fólksfjölda hafa flutningar innan sveitarfélags aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum; voru 92,9 á 1.000 íbúa á árabilinu 1986–1990 en 120,9 árið 2005. Á árinu 2005 fluttu 37,7 á hverja 1.000 íbúa búferlum milli sveitarfélaga innan sama landsvæðis en 32,9 á hverja 1.000 fluttust milli landsvæða.

Nánari greining verður gerð á búferlaflutningum í Hagtíðindahefti hinn 15. febrúar næstkomandi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.