FRÉTT MANNFJÖLDI 13. FEBRÚAR 2007

Hagstofa Íslands hefur nú sent frá sér nýtt Hagtíðindahefti í ritröðinni Mannfjöldi um Búferlaflutninga 1986-2006. Þar kemur fram að undanfarin tvö ár hafa einkennst af umfangsmeiri flutningum til landsins en önnur ár. Tíðni aðfluttra umfram brottflutta í millalandaflutningum var 17,3 samanborið við 13,0 ári áður. Í öllum landshlutum voru aðfluttir fleiri en brottfluttir í millilandaflutningum. Þar munar mestu um Austurland en í kjölfar virkjana og stóriðjuframkvæmda þar hafa flutningar til Austurlands frá útlöndum aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Athygli verkur að erlendum körlum hefur fjölgað mjög ört í flutningum til landsins. Til ársins 2003 voru konur alla jafna fleiri en karlar í flutningum en nú er þessu öfugt farið. Mest áberandi er þetta á Austurlandi en þangað fluttu nær tíu sinnum fleiri karlar en konur frá útlöndum.

Flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum var neikvæður á öllum landsvæðum fyrir utan höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og Suðurland. Í nær öllum þéttbýlisstöðum á Norðurlandi og Vestfjörðum var flutningsjöfnuður innannlands neikvæður. Þetta á t.a.m. við um Akureyri en ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár fluttust fleiri frá bænum en til hans. Þótt flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum sé neikvæður á Austurlandi er hann talsvert hærri en verið hefur og er nú -0,5 samanborið við -10 ári áður. Flutningsjöfnuður í stærstu þéttbýlisstöðunum á Austurlandi er jákvæður, einkum á Egilstöðum en þar var flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum hærri en annars staðar á landinu.

Athugun á flutningum milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar á umræddu tímabili leiðir í ljós að nokkuð hefur dregið úr því forskoti sem höfuðborgarsvæðið hefur haft á landsbyggðina undanfarna áratugi. Þetta má öðru fremur rekja til þess að flutningsstraumurinn til þéttbýlisstaða í nágrenni höfuðborgarsvæðis hefur aukist jafnt og þétt. Í öllum þéttbýlisstöðum í nágrenni höfuðborgarsvæðis með fleiri en 2.000 íbúa, þ.e. Akranes, Hveragerði, Selfoss og Keflavík (að meðtalinni Njarðvík) var flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum meiri en 15 á hverja 1.000 íbúa. Hæstur var hann í Hveragerði 39,3.


Nokkrir megindrættir í búferlaflutningum 1986-2006 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.