FRÉTT MANNFJÖLDI 16. FEBRÚAR 2010


Mesti brottflutningur frá upphafi

Árið 2009 fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess. Aldrei áður hafa jafn margir flutt frá landinu á einu ári. Næstflestir brottfluttir umfram aðflutta voru árið 1887 en þá fluttu 2.229 fleiri frá landinu en til þess. Árið 1887 var mannfækkun vegna búferlaflutninga þó helmingi meiri ef miðað er við miðársmannfjölda, eða 3,1% á móti 1,5%.

Flestir flytja til Póllands
Frá landinu fluttu flestir til Evrópu eða 9.546 en það er tæplega 9 af hverjum 10 brottfluttum. Flestir fóru til Norðurlandanna eða 4.033 sem er 38,0% allra brottfluttra. Þar af fóru 1.576 til Noregs, 1.560 til Danmerkur og 733 til Svíþjóðar. Af einstökum löndum fóru flestir til Póllands eða 2.818 (26,6%).

Mjög dró úr aðflutningi til landsins frá árinu áður. Ef frá eru talin árin 2005–2008 hafa þó aldrei flust fleiri til Íslands frá útlöndum en árið 2009, eða 5.777. Flestir fluttu til landsins frá Evrópu eða 4.938 en það er 85,5% af heildarfjölda aðfluttra til landsins. Frá Norðurlöndum kom 1.931, þar af 1.193 frá Danmörku en 418 komu frá Ameríku. Af einstökum löndum komu flestir frá Póllandi, 1.235.

Búferlaflutningar milli landa 2009
  Aðfluttir umfram brottflutta Aðfluttir  Brottfluttir
Alls -4.835 5.777 10.612
Pólland -1.583 1.235 2.818
Noregur -1.275 301 1.576
Svíþjóð -406 327 733
Danmörk -367 1.193 1.560
Þýskaland -192 237 429
Portúgal -179 58 237
Litháen -147 238 385
Tékkland -114 62 176
Slóvakía -87 43 130
Önnur lönd -485 2.083 2.568

Tíðasti aldur brottfluttra var 25 ár
Árið 2009 voru flestir brottfluttra á aldrinum 25–29 ára. Tíðasti aldur brottfluttra var 25 ár. Flestir aðfluttra voru aftur á móti á aldrinum 20–24 ára árið 2009. Tíðasti aldur aðfluttra var 25 ár.

 


Flutningsjöfnuður bæði erlendra og íslenskra ríkisborgara var neikvæður
Á árinu 2009 varð viðsnúningur í aðflutningi erlendra ríkisborgara til landsins en flutningsjöfnuður þeirra var neikvæður um 2.369. Aðeins einu sinni áður frá 1986 hefur flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara verið neikvæður en það var árið 1992 en þá fluttu 459 fleiri erlendir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara var neikvæður um 2.466 einstaklinga. Þetta eru fleiri brottfluttir umfram  aðflutta en áður frá 1986, en áður var flutningsjöfnuðurinn óhagstæðastur árið 1995 þegar 1.637 íslenskir ríkisborgarar fluttu erlendis umfram aðflutta.

Kynjahlutfall jafnast
Fram að árinu 2003 fluttust að jafnaði fleiri konur til landsins en karlar. Þessi þróun snerist við á tímabilinu frá 2004–2007. Á þeim árum fluttust til landsins 5.913 fleiri karlar en konur. Á þeim tveim árum sem síðan eru liðin hefur hins vegar 4.241 karl flutt umfram konur af landi brott. Árið 2009 fluttu 3.689 fleiri karlar úr landi en til landsins, meðan 1.146 fleiri konur fluttu af landi brott en komu. Mest munar um flutninga karla frá höfuðborgarsvæðinu af landi brott en fjöldi brottfluttra karla umfram aðflutta þaðan árið 2009 var 2.402 á móti 810 konum.


Tíðni innanlandsflutninga ekki verið jafn lág síðan 1987
Fjöldi innanlandsflutninga náði hámarki á árinu 2007 en þá voru skráðar í íbúaskrá þjóðskrár 58.186 flutningstilkynningar. Árið 2008 fækkaði þeim um 8.652 og árið 2009 voru þær komnar niður í 46.926. Miðað við flutninga á hverja 1.000 íbúa þarf að fara aftur til 1988 til að finna lægri tíðni innanlandsflutninga.

Neikvæður flutningsjöfnuður á öllum landsvæðum, mestur á höfuðborgarsvæðinu
Höfuðborgarsvæðið tapaði flestum einstaklingum vegna brottflutninga umfram aðflutninga eða 2.546 manns. Það tap helgast aðallega af miklum flutningum frá höfuðborgarsvæðinu til útlanda en til útlanda fluttu þaðan 3.212 umfram aðflutta. Aftur á móti fékk höfuðborgarsvæðið 666 einstaklinga umfram brottflutta í innanlandsflutningum frá öðrum landsvæðum. Á öllum landsvæðum var fjöldi brottfluttra hærri en fjöldi aðfluttra. Minnstur var munurinn á Norðurlandi vestra (29) og Vestfjörðum (75). Brottfluttir umfram aðflutta voru 379 á Norðurlandi eystra. Fjöldi brottfluttra umfram aðflutta var svipaður fyrir hin landsvæðin fjögur: Suðurnes (450), Vesturland (424), Austurland (459) og Suðurland (473).


Aðferðir
Hagstofan metur búferlaflutninga á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá þjóðskrár. Búferlaflutningar eru gerðir upp á grundvelli skráningardags í þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram. Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi getur dregist að þeir einstaklingar sem flytjast af landi brott séu felldir úr íbúaskrá. Sé unnið við skráningu jafnt og þétt yfir árið hefur þetta þó aðeins smávægileg áhrif á heildartölurnar.

Við uppgjör búferlaflutninga árið 2009 var sú breyting gerð að leiðréttingar og gátun fór eingöngu fram með vélrænum hætti. Nokkuð færri búferlaflutningar voru taldir með þessu móti en þegar gátað er handvirkt, eins og verið hefur til þessa, eða um 2,4%. Áhrifin á flutningsjöfnuð til og frá landinu eru þó nánast engin. Við gátunina kom hins vegar í ljós að börn með lögheimili á Íslandi, en fædd erlendis, hafa frá árinu 1990 verið talin sem aðflutt en ekki með fæðingum. Í uppgjöri búferlaflutninga fyrir árið 2009, en þó ekki fyrir fyrri ár, eru þessi börn ekki talin með aðfluttum. Við það fækkar aðfluttum árið 2009 um 47 einstaklinga. Nánari grein verður gerð fyrir þessari breytingu við útgáfu talna um fæðingar síðar á árinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.