FRÉTT MANNFJÖLDI 25. MARS 2020

Fleiri fluttust til Íslands en frá landinu á árinu 2019 eða 4.961 einstaklingar. Það eru nokkuð færri en árið 2018 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 6.556 og mun færri en metárið 2017 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 8.240. Í sögulegu samhengi hefur flutningsjöfnuður verið mikill síðustu ár en einungis árin 2006 og 2007 komast nálægt þeim í fjölda þegar um 5.200 fleiri fluttust til landsins en frá því.

Samtals fluttust 12.006 manns til landsins 2019 samanborið við 14.275 á árinu 2018. Alls fluttust 7.045 manns frá Íslandi á síðasta ári borið saman við 7.719 árið 2018. Ef einungis er litið til erlendra ríkisborgara var flutningsjöfnuður 5.136 manns. Flutningsjöfnuður meðal íslenskra ríkisborgara var aftur á móti neikvæður, brottfluttir voru 175 fleiri en aðfluttir.

Flestir fluttust til Danmerkur
Af þeim 2.635 íslensku ríkisborgurum sem fluttu af landi brott árið 2019 fóru 1.686 til Danmerkur, Svíþjóðar eða Noregs. Flestir fluttu til Danmerkur, eða 913, en næst flestir til Svíþjóðar (500). Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá þessum löndum eða 1.709 af 2.460. Flestir komu frá Danmörku eða 804.

Flestir erlendir ríkisborgarar fluttust á sama tíma til Póllands eða 1.436 af 4.410. Þaðan komu líka 2.642 erlendir ríkisborgarar á síðasta ári.

Rúmlega 40% aðfluttra og brottfluttra á aldursbilinu 20–29 ára
Eins og síðustu ár var fjölmennasti hópur aðfluttra og brottfluttra árið 2019 á aldrinum 20–29 ára. Tæplega 42% brottfluttra var á þessu aldursbili og rúmlega 42% aðfluttra. Af einstökum árgöngum var 26 ára fjölmennasti hópurinn af brottfluttum (370) en 27 ára af þeim sem fluttust til landsins, eða 620.

Körlum fjölgar vegna búferlaflutninga
Árið 2019 fluttu 2.974 fleiri karlar til landsins en frá því og 1.987 konur. Fram til ársins 2003 fluttust að jafnaði fleiri konur til landsins en karlar. Þessi þróun snerist við á tímabilinu frá 2004 til 2008. Á þeim árum fluttust til landsins samtals 4.215 fleiri karlar en konur. Árin 2009-2012 fluttust hins vegar samtals 4.114 fleiri karlar en konur úr landi umfram aðflutta. Árið 2019 bar svo við að 987 fleiri karlar en konur fluttust til landsins sem er umtalsverð fækkun frá fyrra ári þegar 1.720 fleiri karlar fluttust til landsins.

Flutningsjöfnuðurinn innanlands hagstæðastur á Suðurlandi
Þegar aðeins er horft til flutninga innanlands á milli landshluta voru einungis tveir landshlutar með hagstæðan flutningsjöfnuð árið 2019. Flutningsjöfnuður var hagstæðastur á Suðurlandi, en þangað fluttu 399 umfram brottflutta frá öðrum landshlutum. Einnig var flutningsjöfnuður hagstæður á Suðurnesjunum (40). Aðrir landshlutar voru með neikvæðan flutningsjöfnuð vegna innanlandsflutninga. Óhagstæðastur var hann á Austurlandi (-141) og Norðurlandi eystra (-99).

Árið 2019 nutu allir landshlutar góðs af flutningum á milli landa enda flutningsjöfnuður þeirra jákvæður. Langflestir þeirra 4.961 sem fluttust til Íslands, umfram brottflutta, settust að á höfuðborgarsvæðinu (3.287) en einnig settust stórir hópar að á Suðurnesjum (494) og á Suðurlandi (483). Þegar litið er til flutninga, bæði innanlands og utan, voru öll landsvæðin með jákvæðan flutningsjöfnuð árið 2019.

Búferlaflutningar eftir landshlutum 2019
  Aðfluttir umfram brottflutta
Alls Innanlands Milli landa
Alls4.961 .4.961
Höfuðborgarsvæðið3.231-563.287
Suðurnes53440494
Vesturland76-80156
Vestfirðir26-5177
Norðurland vestra97-12109
Norðurland eystra63-99162
Austurland52-141193
Suðurland882399483

Aðferðir
Hagstofan metur búferlaflutninga á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár. Búferlaflutningar eru gerðir upp á grundvelli skráningardags í þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram. Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi getur dregist að þeir einstaklingar sem flytjast af landi brott séu felldir úr íbúaskrá. Sé unnið við skráningu jafnt og þétt yfir árið hefur þetta þó aðeins smávægileg áhrif á heildartölurnar.

Talnaefni
Búferlaflutningar innanlands
Búferlaflutningar milli landa

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.