Fleiri fluttust til Íslands en frá landinu á árinu 2020 eða 2.435 einstaklingar. Flutningsjöfnuður heldur því áfram að dragast saman frá metárinu 2017 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 8.240. Í sögulegu samhengi hefur flutningsjöfnuður verið mikill síðustu ár en einungis árin 2006 og 2007 komast nálægt þeim í fjölda þegar um 5.200 fleiri fluttust til landsins en frá því.
Samtals fluttust 10.429 manns til Íslands 2020 samanborið við 12.006 á árinu 2019. Alls fluttust 7.994 manns frá landinu á síðasta ári borið saman við 7.045 árið 2019. Ef einungis er litið til erlendra ríkisborgara var flutningsjöfnuður 1.878 manns sem er mikil lækkun miðað við síðustu ár. Mestur var flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara árið 2017 þegar 7.888 fleiri erlendir ríkisborgara fluttu til landsins heldur en frá því. Flutningsjöfnuður á meðal íslenskra ríkisborgara var aftur á móti með því mesta sem sést hefur eða 557 miðað við að hafa verið neikvæður flest ár þessarar aldar.
Flestir fluttust til Danmerkur
Af þeim 2.161 íslensku ríkisborgurum sem fluttu af landi brott árið 2020 fóru 1.360 til Danmerkur, Svíþjóðar eða Noregs. Flestir fluttu til Danmerkur, eða 730, en næst flestir til Svíþjóðar (367). Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá þessum löndum eða 1.594 af 2.718. Flestir komu frá Danmörku eða 790.
Flestir erlendir ríkisborgarar fluttust á sama tíma til Póllands eða 1.958 af 5.833. Þaðan komu líka 1.966 erlendir ríkisborgarar á síðasta ári.
Tæplega 39% aðfluttra og brottfluttra á aldursbilinu 20–29 ára
Eins og síðustu ár var fjölmennasti hópur aðfluttra og brottfluttra árið 2020 á aldrinum 20–29 ára. Tæplega 39% brottfluttra var á þessu aldursbili og einnig tæplega 39% aðfluttra. Af einstökum árgöngum var 26 ára fjölmennasti hópurinn af brottfluttum (407) en 25 ára og 26 ára voru jafn fjölmennir af þeim sem fluttust til landsins eða 467.
Flutningsjöfnuðurinn innanlands hagstæðastur á Suðurlandi
Þegar aðeins er horft til flutninga innanlands á milli landshluta voru fjórir landshlutar með hagstæðan flutningsjöfnuð árið 2020. Flutningsjöfnuður var hagstæðastur á Suðurlandi en þangað flutti 161 umfram brottflutta frá öðrum landshlutum. Þar á eftir kom höfuðborgarsvæðið með flutningsjöfnuð uppá 62. Einnig var flutningsjöfnuður hagstæður á Suðurnesjunum (43) og Norðurland vestra (6). Í öðrum landshlutum var flutningsjöfnuður neikvæður vegna innanlandsflutninga. Óhagstæðastur var hann á Vesturlandi (-90), Austurlandi (-76) og Vestfjörðum (-81).
Árið 2020 nutu allir landshlutar nema Norðurland eystra (-50) góðs af flutningum á milli landa enda flutningsjöfnuður þeirra jákvæður. Langflestir þeirra 2.435 sem fluttust til Íslands, umfram brottflutta, settust að á höfuðborgarsvæðinu (1.829) en einnig settist stór hópur að á Suðurlandi (249). Þegar litið er til flutninga, bæði innanlands og utan, voru öll nema þrjú landsvæði með jákvæðan flutningsjöfnuð árið 2020. Eina landsvæðið sem hafði bæði neikvæðan flutningsjöfnuð á milli landa og innanlands var Norðurland eystra og var flutningsjöfnuður þar neikvæður upp á 73.
Aðferðir
Hagstofan metur búferlaflutninga á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár. Búferlaflutningar eru gerðir upp á grundvelli skráningardags í þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram. Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að erlendir ríkisborgarar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi getur dregist að þeir einstaklingar sem flytjast af landi brott séu felldir úr íbúaskrá. Sé unnið við skráningu jafnt og þétt yfir árið hefur þetta þó aðeins smávægileg áhrif á heildartölurnar.
Talnaefni
Búferlaflutningar innanlands
Búferlaflutningar milli landa