Nú liggja fyrir á vef Hagstofu Íslands tölur um búferlaflutninga sem skráðir voru á fyrsta ársfjórðungi ársins 2009. Hagstofan metur búferlaflutninga á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá þjóðskrár. Búferlaflutningar eru gerðir upp á grundvelli skráningardags í Þjóðskrá en ekki eftir því hvenær flutningur fór fram. Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi getur dregist að þeir einstaklingar sem flytjast af landi brott séu felldir úr íbúaskrá.
Á fyrsta ársfjórðungi 2009 fluttu 711 fleiri frá landinu en til þess en á sama tímabili í fyrra var flutningsjöfnuður jákvæður um 1.087 manns. Frá landinu fluttu flestir til Póllands (764), Danmerkur (375), Noregs (268) og Svíþjóðar (176). Á þessum þremur mánuðum fluttu flestir til landsins frá Póllandi (399), Danmörku (290), Bretlandi (78) og Bandaríkjunum (77).
Mikið hefur dregið úr aðflutningi erlendra ríkisborgara síðustu misseri og fyrstu þrjá mánuði ársins var flutningsjöfnuður þeirra neikvæður um 317 manns. Flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara var einnig neikvæður (-394). Þess ber þó að gæta að jafnan er töluvert um brottflutning íslenskra ríkisborgara á þessum árstíma til að hefja nám erlendis á vorönn.
Einungis Vestfirðir (35) og Norðurland vestra (2) voru með jákvæðan flutningsjöfnuð á fyrsta ársfjórðungi 2009. Mestur var brottflutningurinn frá höfuðborgarsvæðinu (-301), Austurlandi (-190) og Vesturlandi (-80). Flutningsjöfnuður var einnig neikvæður á Norðurlandi eystra (-78), Suðurnesjum (-60) og Suðurlandi (-39).
Talnaefni